Heillaóskaskrá

ÍTR

Essei

Ottó B Arnar

Þrír frakkar hjá Úlfari

 

Brúskur hárstofa ehf

Danica sjávarafurðir hf

Ís og Ævintýri ehf

Ísfrost

Íþróttasamband Fatlaðra 

Landsamband Lögrelgumanna

Löndun ehf

Nonni Litli ehf

Orka ehf

Sálarransóknarfélag Reykjavíkur

SB Pípulagnir ehf

Skipakostur slf

Slólpi Gámar ehf

Stjörnuegg hf

Tannlæknastofa Theodórs ehf

Teiknistofan Tröð

Tösku og Hanskabúðin

Útfarastofa Íslands

Veislulist ehf

Vídd ehf

Wurt á Íslandi ehf

1950-1959
Hinn ágæti millilengdahlaupari ÍR, Pétur Einarsson,  á ferð í Víðavangshlaupi ÍR 1950. Var það í eina skiptið sem hann keppti í hlaupinu.

1950 - Hrunamenn unnu óvæntan sigur

Þar voru engir hrunkar á ferð, heldur léttstigir hlauparar úr sunnlenskri sveit; Hrunamennirnir sem fóru með sigur af hólmi í 3ja manna sveitakeppni 35. Víðavangshlaups ÍR. Ármenningurinn Stefán Gunnarsson vann hlaupið þriðja árið í röð og hlaut því til eignar ÍR-bikarinn sem veittur hefur verið fyrsta manni í mark.

Fjölmiðlar höfðu spáð því að keppnin að þessu sinni yrði jöfn og óvægin. Meðal annarra myndu mæta til keppni Ármenningarnir Stefán Gunnarsson og Haraldur Þórðarson, sem báðir hefðu unnið sigur í hlaupinu, Njáll Þóroddsson er koma myndi við sjötta mann frá Ungmennafélagi Hrunamanna, Kristján Jóhannsson frá UMSE er vakið hefði athygli á hlaupabrautinni 1949 og ÍR-ingarnir Guðmundur Bjarnason og Pétur Einarsson.

Og það varð úr, að keppnin um sigur í hlaupinu var lengi jöfn og tvísýn, en á endasprettinum skar Stefán sig úr og vann öruggan sigur. Hljóp hann vegarlengdina á 9:11,6 mín., en annar varð Kristján Eyfirðingur á 9:17,4 mín., og þriðji Njáll á 9:17,6 mín. Stutt á eftir honum kom svo liðsfélagi Njáls, Eiríkur Þorgeirsson, á 9:20,0 mín.

Lesa meira >>

1951 - Stefán fyrstur fjórða árið í röð

Hlaupararnir að fara af Njarðargötu inn í Hljómskálagarðinn. Til vinstri er Stefán Gunnarsson er Stefán Gunnarsson Ármanni að taka forustuna af Kristjáni Jóhannssyn UMSE er verið hafði fyrstur alla leiðina fram að því.

Þegar hlaupaleiðin var gengin með keppendum í 36. Víðavangshlaupi ÍR síðasta vetrardag var veðurútlitið eigi gott; snjór yfir öllu og skafrenningur. En svo rann sumardaginn fyrsti upp bjartur og fagur. Þótt veður væri kalt, 4-5 stiga frost á hádegi og lítilsháttar norðnorðaustan næðingur, var ákveðið um morguninn, að freistast skyldi að hlaupa.

Lesa meira >>

1952 - Fjórir fyrstu voru úr ÍR

Kristján Jóhannsson ÍR kemur fyrstur í mark 1952.

ÍR-ingar báru glæsilegan sigur úr býtum í 37. Víðavangshlaupi félagsins, á sumardaginn fyrsta 1952. Skipuðu þeir fjögur fyrstu sætin og áttu auk þess 11. og 12. mann. Kristján Jóhannsson sigraði glæsilega, kom 25 sekúndum á undan næsta manni, hinum unga ÍR-ingi Sigurði Guðnasyni, í mark. Var þetta í fyrsta sinn sem ÍR-ingur vinnur hlaupið frá því Jón Kaldal og Ólafur Sveinsson unnu fyrstu fjögur hlaupin, 1916 til 1919.

Víðavangshlaupið er venjulega fyrsti vorboði í útiíþróttalífi borgarinnar og hressir huga allra þeirra, sem hafa áhuga á íþróttum. Veður var þó fremur kalsalegt á fyrsta sumardegi 1952, austan gjóla og slítingur úr lofti. Með ólíku veðri kvaddi veturinn því á síðasta degi hans var glampandi sólskin í bænum, logn allan daginn. Kuldinn, rigningin og næðingurinn daginn eftir gerði að verkum að áhorfendur á Víðavangshlaupinu voru færri en vant var.

Hlaupið hófst og lauk í Hljómskálagarðinum og var sú breyting til ánægjuauka fyrir áhorfendur. Það var nýbreytni að hefja hlaupið þar. Allir keppendurnir 13 sem hófu hlaupið luku því.

Lesa meira >>

1953 - Kristján vann með yfirburðum

Kristján Jóhannsson í kunnuglegri stöðu, fer hér fremstur í Víðavangshlaupi ÍR 1955.

Veður var kalt og hvasst og skilyrði því afar slæm fyrir hlauparana 18, sem röðuðu sér upp á rásmarki 38. Víðavangshlaups ÍR, á Melavelli sumardaginn fyrsta 1953. Sextán þeirra komu að marki en langfljótastur þeirra varð Kristján Jóhannsson ÍR. Yfirburðir hans voru afgerandi miklir því hann varð 20 sekúndum á undan næsta manni.

Kristján var í sérflokki, lét hvassviðrið ekki á sig fá og tók þegar forustuna er út af vellinum kom og hélt henni alla leið. Jók hann stöðugt bilið eftir því sem nær dró endamarki. Eftir um 3,2 km hlaup kom hann í mark 100 metrum á undan næstu mönnum og vann þar með sigur í hlaupinu annað árið í röð.

Lesa meira >>

1954 - Eyfirðingar og Austfirðingar sigra

Austfirðingar létu að sér kveða í Víðavangshlaupi ÍR bæði 1954 og 1955. Hér eru keppendur síðara árið, f.v.: Níels Sigurjónsson, Óskar Sigurðsson, Guðmundur Hallgrímsson, Bergur Hallgrímsson, Már Hallgrímsson og Rafn Sigurðsson.

Þriðja árið í röð fór Kristján Jóhannsson með sigur af hólmi í Víðavangshlaupinu 1954 en að þessu sinni keppti hann á ný fyrir Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE). Utanbæjarmenn voru menn dagsins því Eyfirðingar unnu 3ja manna sveitakeppnina og Austfirðingar fimm manna bikarinn.

Lesa meira >>

1955 - ÍR vann sveitakeppnina, Svavar fyrstur

Frá upphafi 40. Víðavangshlaups ÍR, árið 1955. Helgi frá Brennu gefur merki um að hlaupið sé að hefjast en hann var ræsir hlaupsins í mörg ár. Ólafur Sveinsson, sem sigraði í þriðja og fjórða hlaupinu, fylgist með að brautin sé hrein.

Veðurguðirnir brostu við keppendum í fertugasta Víðavangshlaupi ÍR og reyndar öllum bæjarbúum er sumardagurinn fyrsti árið 1955 rann upp í höfuðstaðnum. Veður var mjög gott, logn, sólskin og fremur hlýtt. Fjöldi manns var saman kominn í Hljómskálanum til þess að horfa á hlaupið í blíðu þessari og njóta skemmtilegrar keppni.

Lesa meira >>

Stefán Árnason fremstur í Víðavangshlaupinu 1956 en á hæla hans koma Svavar Markússon og Kristleifur Guðbjörnsson.

1956 - Rykkur Svavars dugði skammt

Veður var sæmilega gott, en færi nokkuð þungt í Vatnsmýrinni, þar sem mest var hlaupið í 41. Víðavangshlaupi ÍR, sumardaginn fyrsta 1956. Landsynningur var og sumarhiti, 10°C, á hádegi. Áhorfendur voru allmargir þótt ekki væri nema brot af þeim fjölda sem sá hlaupið á meðan endað var í Austurstræti.

Að þessu sinni hófst hlaupið og endaði í Hljómskálagarðinum og var mjög spennandi frá upphafi. Hlaupið var suður Vatnsmýrina, suður undir Tívoli og síðan til baka austan við Melaveg inn í Hljómskálagarð aftur og endað við Hljómskálann.

Lesa meira >>

1957 - Sunnan stormur blés í fang

Keppnin nýhafin í 42. Víðavangshlaupi ÍR. Á innfelldu myndinni er sigurvegarinn, Kristján Jóhannsson.

Óblíðar aðstæður biðu hinna örfáu keppenda í 42. Víðavangshlaupi ÍR, 25. apríl 1957. Þótt hiti væri 10°C blés sunnan stormur. Höfðu keppendur hann í fangið fyrri hluta leiðarinnar. Var það þeim erfið raun að sækja gegn vindinum.

Hlaupið hófst með því að Finnbjörn Þorvaldsson, spretthlauparinn sigursæli, skaut keppendum af stað í Hljómskálagarðinum. Þar endaði hlaupið eftir hring suður á holtin og um Vatnsmýrina, en vegalengdin var um 3.000 metrar.

Lesa meira >>

1958 - Nær óþekktur Borgfirðingur sigraði

Haukur Engilbertsson UMSB vann óvænt Víðavangshlaup ÍR 1958. Annar varð Kristleifur Guðbjörnsson KR.

Er bæjarbúar vöknuðu um morguninn fyrsta sumardag skein sólin dátt og hár á höfði hreyfði vart. Hélst svo allan daginn, hiti um 7°C en virkaði hlýrra þegar hlaupið hófst. Sagt var að veðrið í Reykjavík á degi þessum hafi ekki verið eins gott í yfir 20 ár. En gæðunum var misskipt því er til dæmis Húsvíkingar risu úr rekkju á sumardaginn fyrsta var þar slydduhríð og þoka svo tæplega sá á milli húsa.

Í þessu blíðskaparveðri fjölmenntu Reykvíkingar og gestir þeirra út úr hýbýlum sínum og viðruðu sig. Því voru margir áhorfendur viðstaddir hlaupið sem var hið 43. í röðinni. Var mannmergðin í miðborginni meiri en elstu menn mundu. Þrátt fyrir veðurblíðuna var þátttaka í hlaupinu með minna móti sem þótti miður. Að því fundu dagblöðin og kváðu hlaupið hafa verið fremur rislágt sakir þess. Aðeins 10 keppendur mættu til leiks, sex frá ÍR, tveir frá KR, einn frá Ungmennafélagi Selfossi og einn frá Ungmennafélagi Reykdæla í Borgarfirði.

Lesa meira >>

1959 - Haukur hristi keppinautana af sér

Keppendur í viðbragðsstöðu á rásmarki Víðavangshlaups ÍR 1959. Sigurvegarinn Haukur Engilsbertsson UMSB er lengst til hægri og Kristján Jóhannsson ÍR, sem varð annar, lengst til vinstri.

Því var spáð, að keppnin myndi standa á milli Borgfirðingsins Hauks Engilbertssonar og svarfdælska ÍR-ingsins Kristjáns Jóhannssonar í 44. Víðavangshlaupi ÍR. Haukur vann árið áður og Kristján hafði fjórum sinnum unnið hlaupið. Áhorfendur að hlaupinu voru margir og veður hlýtt, en rigning.

Lesa meira >>