Heillaóskaskrá

ÍTR

Essei

Ottó B Arnar

Þrír frakkar hjá Úlfari

 

Brúskur hárstofa ehf

Danica sjávarafurðir hf

Ís og Ævintýri ehf

Ísfrost

Íþróttasamband Fatlaðra 

Landsamband Lögrelgumanna

Löndun ehf

Nonni Litli ehf

Orka ehf

Sálarransóknarfélag Reykjavíkur

SB Pípulagnir ehf

Skipakostur slf

Slólpi Gámar ehf

Stjörnuegg hf

Tannlæknastofa Theodórs ehf

Teiknistofan Tröð

Tösku og Hanskabúðin

Útfarastofa Íslands

Veislulist ehf

Vídd ehf

Wurt á Íslandi ehf

1970-1979
Halldór (t.v.) og Sigfús berjast um sigurinn 1970.

1970 - Halldóri dæmdur sigurinn

Langt var síðan jafngóð þátttaka og eins spennandi keppni hafði verið í Víðavangshlaupi ÍR og hinu 55. í röðinni. Hóf 31 keppandi hlaupið og allir komu þeir í mark. Sigurvegari varð Halldór Guðbjörnsson KR eftir mikla baráttu við hinn unga og efnilega ÍR-ing Sigfús Jónsson. Sá ljóður var á framkvæmd hlaupsins að endamark var ekki auðkennt og vissi hvorugur hvar markið var er þeir Halldór og Sigfús hlupu hnífjafnir allan Fríkirkjuveginn svo illmögulegt var að átta sig á hvor var á undan. Dómarar hlaupsins dæmdu að endingu Halldóri sigurinn.

Sólskin var er hlaupið hófst en norðan gola og nokkuð kalt. Þegar hlaupararnir sneru við Vatnsmýri og stefndu niður í miðborgina höfðu þeir Sigfús og Halldór tekið afgerandi forystu og bitust hart.

Lesa meira >>

1971 - Konur keppa í fyrsta sinn

Konur kepptu í fyrsta sinn í Víðavangshlaupi ÍR árið 1971 er þrjár ungar stúlkur úr ÍR tóku þátt. Þær eru (f.v.) Bjarney Árnadóttir, Katrín Ísleifsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir.

Söguleg tímamót urðu í Víðavangshlaupi ÍR árið 1971. Konur, eða veikara kynið eins og Morgunblaðið sagði, kepptu í fyrsta sinn og stóðu sig með sóma. Þá var þátttökumet slegið með því að 61 keppandi hóf hlaupið og komu þeir allir í mark í hlýju sólarveðri. Vantaði þó 25 skráða, aðallega vegna flensufaraldurs. Halldór Guðbjörnsson, hinn kunni hlaupari úr KR, sigraði í hlaupi eftir mjög harða keppni við ungan ÍR-ing, Ágúst Ásgeirsson.

Lesa meira >>

1972 - Enginn átti svar við lokaspretti Ágústs

Ágúst Ásgeirsson ÍR vinnur sinn fyrsta sigur af sjö í Víðavangshlaupi ÍR 1972.

Í byrjun áttunda áratugarins voru að koma fram ungir og efnilegir hlauparar sem þóttu líklegir til aukinna afreka í framtíðinni. Skari sá var að sumu leyti afrakstur Hljómskálahlaups ÍR sem hóf göngu sína í ársbyrjun 1969. Þar og í fleiri unglingahlaupum ÍR á næstu árum komu fyrst fram margir íþróttamenn af báðum kynjum sem áttu eftir að láta að sér kveða, bæði frjálsíþróttum og öðrum greinum.

Lesa meira >>

1973 - Ragnhildur á undan strákunum

Vísi þótti athyglisvert að Ragnhildur kæmi fyrst í mark. Á myndinni með frétt blaðsins má sjá Ágúst og Einar í harðri rimmu að baki Ragnhildar. Konunum var skotið af stað nokkrum mínútum á undan körlunum og því tókst svona skemmtilega til.

Mikla athygli vakti í 58. Víðavangshlaupi ÍR að það var stúlka sem kom fyrst í mark, Ragnhildur Pálsdóttir, UMSK. Þessu hafði enginn reiknað með en skýringin er sú, að stúlkurnar voru ræstar af stað um tveimur mínútum á undan körlunum. Ragnhildur hljóp það rösklega að þeir náðu henni aldrei alveg, hún sleit marksnúruna nokkrum metrum á undan þeim. Tími hennar hefði annars dugað til 13. sætis af 30 í karlaflokki.

Lesa meira >>

1974 - ÍR-ingar eignast sinn fyrsta bikar

Fyrstu þrír taka við verðlaunum sínum (f.v.) Sigurður Pétur Sigmundsson FH, sem varð þriðji, Sigfús Jónsson ÍR, sem varð annar, og Ágúst Ásgeirsson ÍR.

Víðavangshlaup ÍR 1974 markar tímamót því nú unnu gestgjafarnir í fyrsta sinn bikar í sveitakeppni hlaupsins til eignar. Var það bikar Gunnars Ásgeirssonar hf. fyrir 3ja manna sveit. Í starfsskýrslu frjálsíþróttadeildar ÍR segir: „ Þar með er ísinn brotinn og það er von okkar að fleirri geti á eftir fylgt og að ekki þurfi að bíða önnur 59 ár eftir næsta bikar.“ Vonir félagsins um frekari sigra á ókomnum árum áttu heldur betur eftir að rætast.

Lesa meira >>

1975 - Sigfús stakk af snemma

Sigfús sigraði í 60. Víðavangshlaupi ÍR með þónokkrum yfirburðum.

„Aðstæðurnar í dag voru mér í hag,“ sagði Sigfús Jónsson, sigurvegari í 60. Víðavangshlaupi ÍR, að keppni lokinni. „Ég hugsaði um það eitt að ná sæmilegu forskoti strax, vissi að ef ég næði því ekki myndi a.m.k. Ágúst taka mig örugglega á endasprettinum. Þetta heppnaðist. Mér tókst fljótlega að ná góðu forskoti á þá Ágúst og Jón, og halda því síðan. Brautin var að mínu viti skemmtilega lögð, og þetta var ekki mjög erfitt hlaup. Mýrin var að vísu nokkuð laus undir fæti, en ekki svo að það kæmi að verulegri sök,“ bætti Sigfús við í samtali í Morgunblaðinu.

Lesa meira >>

Ágúst Ásgeirsson ÍR hleypur fyrstur í mark í Víðavangshlaupi ÍR 1976.

1976 - Allt fór til ÍR í 61. hlaupinu

„Það má búast við spennandi keppni, þar sem flestir okkar bestu hlauparar taka þátt i hlaupinu,“ sagði Guðmundur Þórarinsson þjálfari ÍR spurður um horfur og þátttöku í 61. Víðavangshlaup ÍR. Til keppni voru skráðir 93 keppendur frá 10 félögum. Þar af 31 stúlka og er það mesta þátttaka kvenna fram að þessu, en flestar höfðu þær verið 16 áður. Þrjú félög sendu 10 manna sveitir til leiks, HSK, UBK og ÍR og meðal sérkenna hlaupsins var, að í því tóku þátt tvennir feðgar úr ÍR, Ásbjörn Sigurðsson og Guðmundur sonur hans, og Andrés Sigurjónsson og Sigurjón sonur hans.

Ekki reyndust nema 65 af tilkynntum keppendum mættir þegar hlaupið hófst í Hljómskálagarðinum. Hefðu allir þessar hlauparar lokið keppni hefði það verið meira en nokkru sinni fyrr í Víðavangshlaupi ÍR, en fimm hættu hlaupinu, þannig að 60 komu í mark, fjórum færri en best hefur gerst áður. Meðal þeirra sem ekki luku hlaupinu var sigurvegarinn á Víðavangshlaupi Íslands, Sigurður P. Sigmundsson FH, sem talinn var líklegur til afreka í ÍR-hlaupinu.

Lesa meira >>

1977 - Millimetrar á marklínunni

Allt í botni hjá Ágústi (t.v.) og Sigfúsi í byrjun Austurstrætis. Að baki þeim er skrifstofa Matthíasar Morgunblaðsritstjóra sem heimtaði sigur af Ágústi.

Metþátttaka var í hinni árlegu sumargjöf, Víðavangshlaupi ÍR, á sumardaginn fyrsta 1977 en þá fór hlaupið fram 62. árið í röð. Alls voru 110 skráðir til leiks, en hvorki fleiri né færri en 93 keppendur luku hlaupinu. Flestir höfðu þeir orðið 64 áður, árið 1972. Aldrei höfðu fleiri konur lokið hlaupinu, en þær urðu 30 að þessu sinni. Fjölmargir áhorfendur fögnuðu þátttakendunum 93 þegar þeir tóku sprettinn, flestir sporléttir, inn Austurstrætið í lok hlaupsins.

Líkur þóttu vera á mikilli keppni og spennandi hlaupi, því allir bestu hlauparar landsins voru skráðir til leiks. Sigurstranglegastir voru að mati Morgunblaðsins þeir Jón Diðriksson UMSB, Sigfús Jónsson ÍR og Ágúst Ásgeirsson ÍR. Spáð var jafnharðri keppni um mörg fremstu sætanna í hlaupinu. Ágúst sigraði í hlaupinu 1972, ‘73, ‘74 og ’76 en Sigfús 1975 og Jón varð í öðru sæti í tveimur síðustu hlaupum. Og víst var, að keppnin um sigurinn að þessu sinni var eitilhörð og skildu aðeins millimetrar fremstu menn að á marklínunni.

Lesa meira >>

1978 - Jón stakk af í Vatnsmýrinni

Bryndís Hólm kemur í mark, aðeins 12 ára gömul en hún átti eftir að láta mjög að sér kveða á frjálsíþróttavellinum.

Það vissi á gott að koma heim frá Englandi til að keppa í Víðavangshlaupi ÍR á sumardaginn fyrsta. Þar ytra voru aðstæður til æfinga auðveldari og þeir sem nutu þeirra í betri æfingu en heimamenn. Svo reyndist vera 1974, 1975 og 1976. Og Jón Diðriksson úr UMSB sannaði þessa reglu með yfirburðasigri í hlaupinu 1978.

Jón var við nám í Newcastle í Englandi og kom gagngert heim til keppni fyrir félag sitt í Víðavangshlaupinu. Meðal keppinauta voru flestir bestu hlauparar landsins og sigurvegari síðustu tveggja ára, Ágúst Ásgeirsson ÍR. Útlit hafði þótt fyrir hörku keppni en svo fór að af mótherjunum hafði Jón litla keppni. Hann tók forystuna þegar í upphafi og var langfyrstur þegar hlaupararnir komu út úr Vatnsmýrinni. Fyrst um sinn fylgdu Ágúst og Gunnar Páll Jóakimsson honum eftir, en í Vatnsmýrinni, við flugvallarendann, þakkaði Jón fyrir fylgdina og hljóp frá þeim. Sigraði hann með miklum yfirburðum í 63. Víðavangshlaupi ÍR. Ágúst varð annar og Gunnar Páll þriðji.

Lesa meira >>

1979 - Ágúst sigrar sjötta sinni og setur met

1979-1 agas sigrar

Áttundi áratugurinn var áratugur hlaupara úr ÍR í víðavangshlaupi félagsins. Unnu þeir hlaupið hvað eftir annað og flestar sveitakeppnir líka. Einn þessara hlaupara braut blað í sögu hlaupsins í 64. Víðavangshlaupi ÍR, sumardaginn fyrsta 1979.

Lesa meira >>