Landsbankinn

atlas

Hreysti

Leiksport

Hagabakarí

World Class

Gáski

Nings

jako

Framkvæmdanefnd móta
Hlutverk og ábyrgðarsvið framkvæmdanefndar móta er að sjá um að stýra undirbúningi fyrir þau mót sem deildin heldur í eigin nafni og annara. Það að framkvæma fjölmenn frjálsíþróttamót er mjög mannfrek framkvæmd og fjöldinn allur af sjálfboðaliðum úr röðum foreldra, iðkenda og velunnara deildarinnar leggja þar sitt af mörkum undir stjórn framkvæmdanefndar móta. Þegar vinnan skiptist á marga verður þetta ekki svo mikið á mann og á stóru mótunum okkar eru hátt í hundrað sjálfboðaliðar sem koma að framkvæmdinni með einum eða öðrum hætti.
Deildin hefur boðið sjálfboðaliðum leiðbeiningar og námskeið til að efla sig sem starfsmenn móta. Fjölmargir hafa sótt námskeið í dómgæslu á mótum bæði hjá Frjálsíþróttasambandinu og deildinni. En svo eru líka fjölmörg störf sem ekki krefjast neinnar sérþekkingar og allir geta unnið. Sú þekking sem skapast hefur innan deildarinnar er ómetanlegur fjársjóður þegar kemur að mótahaldinu.

Hefðin og sagan
Frjálsíþróttadeild ÍR hefur frá upphafi verið öflugasti framkvæmdaaðila frjálsíþróttamóta á Íslandi. ÍR ingar héldu fyrsta frjálsíþróttamót sem haldið var á landinu 1.-2. ágúst 1909, Leikmót ÍR, og hafa ekki slegið slöku við síðan. Mótin hafa skapað sér fastan sess í íþróttalífi landsins og þannig viljum við hafa það áfram. Fyrir utan að halda okkar mót tekur deildin að sér að halda mót fyrir FRÍ eins og aðrar frjálsíþróttadeildir á landinu. Um er að ræða eitt til tvö mót á ári. Sú hefð hefur skapast síðan frjálsíþróttahöllin í Laugardal var opnuð að Meistaramót Íslands innanhúss eru haldin þar en utanhúss mótin eru flest haldin á landsbyggðinni í yngri flokkunum en í fullorðinsflokki til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Álag í mótahaldi er því mest yfir vetrartímann.

Tilgangur
Það að halda frjálsíþróttamót í því magni og af þeirri stærðargráðu og gæðum sem deildin gerir hefur margþættan tilgang.
 • Að gefa iðkendum tækifæri til þess að keppa í íþróttinni og efla með því áhuga þeirra og gefa þeim verðmæta reynslu sem nýtist þeim í leik og starfi.
 • Að efla félgasþroska iðkenda og skapa tækifæri til að ala upp liðsheildina og samstöðuna í hópum iðkenda.
 • Að styrkja samband barna og foreldra með því að gefa foreldrum tækifæri til að taka með beinum hætti þátt í íþróttastarfi barna sinna og verða nauðsynlegur hluti af íþróttaiðkun barna sinna. 
 • Að styrkja fjárhag deildarinnar.
 • Að kynna íþróttina fyrir börnum í hverfinu okkar og fjölga með því iðkendum. 
 • Að viðhalda sterkri hefð í íþróttasögu landsins sem við getum verið stolt af.
Frjálsíþróttamót sem deildin heldur í eigin nafni eru
 • Stórmót ÍR í janúar. Fyrst haldið 1997 á 90 ára afmæli félgsins. Mótið hefur verið fyrir alla aldurshópa frá 8 ára og yngri og upp í karla og kvennaflokk. 
 • Vormót ÍR í júní. Fyrst haldið árið 1943. Keppt er í karla og kvennaflokki á Vormótinu. Hefð er fyrir því að það sé síðasta mótið til að ná lágmörkum fyrir stóru mót sumarsins.
 • Breiðholtsmótið í frjálsum í október. Fyrst haldið 2008. Áður hélt deildin Grunnskólamótið en horfið var frá því vegna þess að þátttaka var orðin of mikil og erfitt að koma mótinu fyrir í höllinni á æfingartíma. Breiðholtsmótið hefur verið haldið í samstarfi Frjálsíþróttadeildar ÍR, Háskólans í Reykjavík og grunnskólanna í Breiðholti.
 • Silfurleikar ÍR í nóvember. Fyrst haldnir 1996. Hétu áður Haustleikar ÍR en nafninu var breitt árið 2006 til að minnast silfurverðlaunanna sem Vilhjálmur Einarsson hlaut í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourn árið 1956. Mótið hefur verið fyrir keppendur upp í 16 ára.
 • Þjálfarar ásamt iðkendum og foreldrum halda 10 til 20 innanfélagsmót ár hvert. Þau eru af öllum stærðum og gerðum og þjálfararnir hafa frumkvæði að þessum mótum og kalla eftir aðstoð foreldra ef þörf er á. Talsvert er um að iðkendur annara félaga taki þátt í þessum mótum.
Önnur mót sem við tökum þátt í 
 • Meistaramót Reykjavíkur sem frjálsíþróttadeildirnar í Reykjavík skiptast á að halda. FÍRR sér um skiptingu á þeim mótum. Þetta eru titltölulega lítil og einföld mót sem haldin hafa verið á æfingartíma og þjálfarar að mestu sérð um með hjálp frá foreldrum. 
 • RIG alþjóðlega boðsbótið sem við höldum í samstarfi við hin félögin í Reykjavík þriðju helgina í janúar. Félögin skipta með sér yfirstjórn mótsins og skipta á milli sín umsjón og framkvæmd einstakra greina.