Landsbankinn

atlas

Hreysti

Leiksport

Hagabakarí

World Class

Gáski

Nings

jako

Framtíðarfundur 16. febrúar 2011
2. Janúar 2011 ritaði Þráinn Hafsteinsson okkar ágæti yfirþjálfari áramótapistil til okkar allra. Þessi pistill hefur orðið til þess að við i stjórn viljum staldra við og fá fleiri að borðinu og ræða framtíðarsýn fyrir deildina okkar. Þar er í mörg horn að líta bæði hvað varðar starfið í æfingahópunum, mótahald, hlaupaframkvæmdir, heimasíðumál og stofnun bakhjarlasveitar deildarinnar svo eitthvað sé nefnt. Vonandi geta flestir þeirra sem láta sig málefni deildarinnar varða komið og rætt framtíðina með okkur í ÍR-heimilinu 16. febrúar kl. 20:30.
Hér er áramótapistill Þráins og á eftir hugleiðing frá formanni.

Áramótapistill Þráins
Litið um öxl ..... og til framtíða
Ágætu ÍR-ingar, stjórnendur og þjálfarar Árið 2010 Ársins sem var að líða verður án ef minnst í sögunni þegar ÍR vann í fyrsta skipti heildarstigakeppni allra meistaramóta í frjálsíþróttum innanhúss og utan auk heildarstigakeppni allra Bikarkeppna innanhúss og utan.  Afrek sem á sér ekki fordæmi í frjálsíþróttasögu landsins. Deildin hefur aldrei haldið eins marga og fjölmenna viðburðiog hún gerði á árinu 2010. Lokaviðburður inn var haldinn á síðasta degi ársins þegar Gamlárshlaup ÍR var haldið í 35. sinn með metþátttöku 1169 hlaupara. Til að geta framkvæmt alla þess 50-60 viðburði á árinu þurfti fleiri sjálfboðaliða en nokkru sinni áður.  Iðkendafjöldi hefur aldrei verið meiri hjá deildinni og ÍR átti um helming alls unglingalandsliðsins og þriðjung landsliðsins á liðnu ári. Fleiri þjálfarar störfuðu fyrir deildina en dæmi eru um í sögu hennar og skemmtilegt að sjá að uppaldir ÍR-ingar hasla sér nú völl í þjálfun yngri flokkanna um leið og margir þeirra afla sér menntunar á sviði íþróttafræði.

Eins og ég hef lýst þessu áður, erum við miðju ævintýri. Bið ykkur að njóta þess meðan á því stendur og þakka ykkur um leið fyrir að fá að taka þátt í því með ykkur.

Deild á krossgötum
Á undanförnum árum hefur vöxturinn í starfi frjálsíþróttadeildar ÍR verið mjög hraður.  Það hraður að maðu spyr sig stundum,  getur þetta haldið áfram á þessum nótum og hvar endar þetta? Stærðin er vissulega kostur en getur líka haft sínar slæmu hliðar. Stærðin er jákvæð ef t.d. er horft til innkomu af æfingagjöldum en fleiri iðkendur kalla líka á meira og betra skipulag, fleiri þjálfara og meira utanum hald og stjórnun. Nú finnst mér við standa á krossgötum varðandi þátttakendafjöldann sem er um 550 iðkendur. Fjöldi viðburða og iðkenda er orðinn það mikill að við getum ekki ætlast til að fjölga meira á þessum sviðum og að allir stjórnendur deildarnnar leggi sitt af mörkum í sjálfboðavinnu. Mér finnst við standa frammi fyrir a.m.k. tveimur kostum um framtíð starfsins hjá deildinni.

Kostur A
Við stefnum að frekari iðkendaukningu með mikilli kynningu, stækkum mótin og hlaupin sem við framkvæmum, fjölgum þjálfurum og aukum fjölbreyttni starfseminnar á öllum sviðum. Bætum við flokkum á öllum aldurs og getustigum og víkkum út starfsemina og bjóðum upp á fleiri möguleika fyrir þá sem ekki æfa með keppni í huga. Höldum áfram að efla starfið á öllum aldurs og getustigum með sama hætti og hveru verið gert undanfarin ár. Ef við veljum þessa leið er ljóst að ráða verður framkvæmdastjóra  í fullt starf með sjálfboðaliðunum í stjórn deildarinnar.

Kostur B
Við setjum markið á að sinna enn betur þeim iðkendum sem við höfum án þess að fjölga þeim. Bæta menntun og reynslu þjálfaranna. Bæta innviði starfsins í formi bættrar þjálfunar, félagslegs uppeldis, sálrænnar þjálfunar iðkendanna og meiri fyrirgreiðslu við afreksfólk deildarinnar. Að við leggjum okkur fram um að gera hverjum ÍR-iðkanda vistina í félaginu eins uppbyggileg og skemmtileg og kostur er. Að bæta umgjörð og framkvæmd þeirra viðburða sem við stöndum fyrir en fjölga ekki viðburðum.  Þetta ættum við að geta án verulegra breytinga á núverandi skipulagi þ.e. að stjórnun deildarinnar verði áfram unnin í sjálfboðavinnu án starfskrafts á launum.

Hvað er hægt að leggja mikið á sjálfboðaliðana?
Kannski er það einföldun að varpa fram tveimur kostum.  Getum við náð öllum markmiðunum sem koma fram með því að blanda saman A og B kostunum og náð að fjölga og bæta starfið um leið?? Eftir að hafa starfað i íþróttahreyfingunni í marga áratugi með miklum fjölda fólks og í mörgum íþróttafélögum hefur mér lærst að meta stöðugleikann í starfinu meira en starfsemi sem rís í hæstu hæðir við og við og fellur í öldudali þess á milli.Hjá Frjálsíþróttadeild ÍR hefur tekist að koma á stöðugu , öflugu starfi sem er einstakt hér á landi og þó víðar væri leitað. Öll starfsemin er unnin í sjálfboðavinnu nema þjálfun íþróttahópanna. Ég velti framtíð þessa starfs fyrir mér því mér finnst takmörk fyrir því hvað hægt er að ætlast til að áhugsamir og metnaðarfullir sjálfboðaliðar leggi á sig til að halda starfinu í þeim standard sem það er nú. Ég hef orðið vitni að því of oft að starfsemi sem hafði tekið mörg ár að byggja upp féll eins og spilaborg þegar frumkvöðlarnir hættu vegna mikils álags og engir voru tilbúnir að taka við vitandi hvað mikla vinnu þyrfti að leggja á sig til að halda starfseminni í horfinu. Við megum ekki gleyma okkur í velgengninni og ætlast til að við munum alltaf hafa afburða duglegt og klárt fólk við stjórn deildarinnar í sjálfboðavinnu eins og nú er.  Það er afar mikilvægt upp á stöðugleikann og gæði starfsins að við ætlumst ekki til of mikils af sjálfboðaliðunum. Við verðum að skipuleggja starfsemina þannig að það verði skemmtilegt og gefandi að vinna sem sjálfboðaliði fyrir deildina.

Erum við komin að þeim tímapunkti að ekki verður umflúið að ráða framkvæmdastjóra til starfa? Er það mögulegt fjárhagslega?Er það kannski ekki lausnin? Eru aðrir möguleikar í stöðunni s.s. meiri samvinna við starfsfólk aðalstjórnar ÍR? Eða eru enn aðrar leiðir?

Hvet til umræðu um þessi mál á meðan staðan er eins góð og hún er. Þá er líklegra að við getum haldið starfinu stöðugu og öflugu eins og við höfum gert í góðu samstarfi á undanförnum árum.

Þakka fyrir frábært samstarf á liðnum árum og óska þess að geta unnið með ykkur að eflingu þessarar starfsemi á næstu árum.
Þráinn Hafsteinsson

Hugleiðing frá formanni
Stöðugleiki er lykilatriði í farsælu starfi eins og því sem Frjálsíþróttadeild ÍR stendur fyrir. Stöðugleiki í mönnum lykilfólks í þjálfun og stjórn. Stöðugleiki í fjármálum. Stöðugleiki og gæði í framkvæmd viðburða. Stöðugleiki í þeirri stefnu sem unnið er eftir er líka ákaflega mikilvægur og það er gæfa deildarinnar að hafa verið einkar stefnuföst hvað þetta varðar. Sú stefna sem mörkuð var fyrir margt löngu að innan deildarinnar ættu iðkendur að geta æft hvort sem markmiðið er keppni eða góð hreyfing í skemmtilegum félagsskap hefur verið rauði þráðurinn og sú sýn að það er mikilvægt hagsmunamál fyrir foreldra að geta lagt sitt af mörkum í áhugamáli barnsins síns og tekið virkar þátt í því með barninu og unglingnum. Það að þetta sé mögulegt eykur samskipti barna og foreldra og fátt er betra fyrir börnin.

Það er mikilvægt að það fólk sem er tilbúið að gefa af tíma sínum til að leggja sitt af mörkum upplifi að framlag þess skipti máli og sé mikils metið. Í dag eru um 40 einstaklingar með ákveðin skilgreind hlutverk sem viðkomandi ber ábyrgð á fyrir utan þá sem sitja í stjórn eða eru að þjálfa fyrir deildina. Þetta fólk er gríðarlega mikilvægt í starfinu og mitt mat er það að ef okkur tekst að fjölga í þessum hópi þá séum við ekki að leggja of mikið á neinn. Í deild þar sem iðkendur eru orðnir yfir 500 ætti að vera hægt að ná fleirum inn til að taka ábyrgð á tilteknum störfum. Hér að neðan er listi yfir hlutverk og verkefni sem áhugasamir gætu tekið að sér og létt störfum af þeim sem nú sinna þeim ásamt öðru eða verkefni sem alls ekki  eru unnin nú um stundir vegna skorts á fólki til að sinna þeim. Til viðbótar við þennan hóp eru hátt í 300 einstaklingar sem koma að einhverjum hinna fjölmörgu viðburða sem deildin heldur árlega. Margir hafa sótt námskeið og lært dómgæslu á mótum og eru alltaf að efla sig í þeim þætti þannig að ÍR-ingar eiga nú á að skipa öflugasta tímatöku- og úrslitavinnsluliði landsins. Mótin okkar og hlaupin eru þekkt fyrir gæðaframkvæmd og það á sinn þátt í því að á undanförnum árum fjölgar stöðugt á þessum viburðum. Þetta viljum við standa vörð um og mikilvægt að halda stöðugt áfram að kenna þeim sem koma nýir inn.

Bakhjarlasveitin
Á meðan börnin eru börn er leiðin greið að foreldrum þeirra en þegar þau eru orðin 18 ára eru áhöld um að hve miklu leyti deildin getur haft samband við foreldra iðkenda. Því kviknaði sú hugmynd að bjóða foreldrum iðkenda sem eru 18 ára og eldri að vera í bakhjarlasveit deildarinnar. Það mætti hugsa sér að það yrði um tvennskonar bakhjarla að ræða. Annars vegar þá sem yrðu félagar í deildinni, greiddu lágt félagsgjald (t.d. 1000 krónur árlega) og hefðu þar með atkvæðisrétt á aðalfundi og svo hins vegar þá sem aðeins yrðu bakhjarlar og greiddu ekki félagsgjald. Deildin gæti leitað til bakhjarlanna þegar kemur að því að framkvæma tiltekna viðburði og menn gefið gefið kost á sér í störf eftir því hvernig stendur á hverju sinni. Í þessa bakhjarlasveit mætti líka bjóða eldri ÍR-ingum sem ef til vill hefðu gaman af því að koma stöku sinnum og hitta gamla félaga og rifja upp mótastemninguna. Með þessu móti mætti fjölga þeim sem geta og vilja leggja deildinni lið og dreyfa verkefnunum á fleiri hendur.

Listi yfir verkefni fyrir áhugasama

Umsjón Starfsmannavesta
Þvo þau tvisvar á ári og yfirfara, laga saumsprettur og fylgjast með fjöldanum.

Verðlaunagripir
Sjá um að panta fyrir viðburði og láta grafa á peninga.Nýta upp gamla pengina með því að prenta á límmiða sem hægt er að líma aftan á.Sjá um að nýta bikara sem til eru þegar tækifæri eru til.Hafa yfirsýn yfir farandgripi sem deildin er með í gangi og sjá um að þeir skili sér í tæka tíð fyrir næstu úthlutun.

Uppfæra mótsmetaskrár á heimasíðunni
Fylgast með hvort mótsmet eru slegin á viðkomandi móti og uppfæra þegar þörf er á.

Nælusöfnun
Safna nælum hjá iðkendum og nýta þær í hlaupunum okkar

Flöskusöfnun á mótum og viðburðum sem deildin heldur
Útbúa dalla sem hægt er að nota í þessu skyni og halda utan um flöskusöfnun á viðburðum.

Varðveita söguna
Safna saman gögnum sem eru í varðveislu ýmissa aðila, skrá gögnin og merkja og koma í geymslu.

Myndasafn deildarinnar
Fara yfir gamlar myndir, setja í album og merkja, skanna inn nokkrar vel valdar og setja á heimasíðuna.

Veitingasala á mótum
Safna saman reynslunni, gera gátlista fyrir hvað er gott að panta og selja á mótum. Reyna að fá framleiðendur til að stykja okkur fyrir stóra viðburði

Eignavarsla
Merkja áhöld og tæki sem deildin á. Lista upp eigur okkar og hvar þær eru geymdar eða í umsjá hverra. Fylgjast með umgengni um æfingaráhöld og sjá til þess að þau séu öll vel merkt.

Tímaseðilsgerð fyrir mót
Sjá um að gera tímaseðil tímanlega fyrir mót og fá álit hjá þjálfurum á honum.

Þrautabrautarvinna
Láta útbúa það sem þarf til að halda þrautabraut fyrir fjölmenn mót. Þannig að spara megi teyp og einnotareddingar.

Fjölmiðlafulltrúi út á við
Senda út fréttatilkynningar til fjölmiðla fyrir viðburðina okkar. Reyna að koma umfjöllun um þá inn í ýmsa þætti á ljósvkamiðlunum og blöðunum.

Fjölmiðlafulltrúi inn á við
Þegar gúrkutíð er í íþróttaafrekum og mótum koma þá með fréttir á heimasíðuna þar sem fjallað er um starfið í deildinni. Tildæmis umfjöllun um ákveðinn æfingarhóp, uppryfjun gamalla frétta, kynna hina hliðin á íþróttafólkinu okkar og fleira sem mönnum dettur í hug.

Ljósmyndarar
Mikilvægt að skrásetja viðburðina okkar og lífið í deildinni með myndum. Það er oft margt í gangi í einu og gaman að taka líka myndir af æfingum og félgaslegum uppákomum. Þurfum miklu fleiri ljósmyndara.

Hlaupaframkvæmd á heimasíðuna
Þarf að koma inn á síðuna leiðbeiningum um framkvæmd hlaupanna.

Uppfærsla á heimasíðunni
Gott að fá fleiri sem geta unnið sjálfstætt í að uppfæra upplýsingar á heimasíðunni. Þessu má skipta í nokkur verkefni ef því er að skipta

Þýðingar á efni sýðunnar

Markaðssetning Stórmótsins í nágrannalöndum sem gott mót fyrir 15 til 16 ára og eldri.

Útdráttarverðlaunasnýkir
Skemmtilegt að vera með útdráttarverðlaun í hlaupunum vantar einhvern sem fer í að snýkja þessi verðlaun tímanlega og safna fyrir hlaupin.

Þessi listi er ekki tæmandi en er það sem útaf stendur á þeim listum sem ég hef búið til í gegnum árin. Hin atriðin á listunum mínum eru komin í hendur fólks sem sinnir þeim af kostgæfni og það er þetta fólk sem gerir það að verkum að það er alltaf gaman og gefandi að verja tíma sínum í þetta starf.
Margrét Héðinsdóttir