hertz-hvitur_grunnur

BootCamp

Serrano

jako

landsbankinn

Subway

 

atlas

netto

Bros

tm

Portfarma

Auðmerkt

III. hluti
Austur-Þýskalandsheimsókn ÍR 1959

III. hluti

21. Königsberg-kastali

Daginn eftir var ekið enn lengra suður á bóginn og meðal annars ekið gegnum Dresden. Sorglegt var að sjá borgina enn í rústum fjórtán árum eftir lok stríðsins. En því næst lá leiðin upp í Saxnesku Alpana suður undir Tékkóslóvakíu þar sem voru hinar mikilfenglegustu fjallamyndir, stórbrotnar og ægifagrar. Á toppi þeirra sumra hafa verið reistir kastalar til forna og skoðuðum við einn slíkan, Königsberg, sem í tveimur heimsstyrjöldum hefur verið notaður sem geymsla fyrir handtekna óvinahershöfðingja. Undarlegt er að sama hershöfðingjanum, Giraud hinum franska, skyldi takast að strjúka þaðan í báðum styrjöldunum með snarbrattan meira en hundrað metra háan klettavegginn allt í kring, slípaðan sandstein þar sem hvergi var misfellu að finna og því ótrúlegt þrekvirki að komast þar niður.
Á sömu slóðum skoðuðum við líka gríðarstórt minnismerki um Napóleon Bónaparte Frakklandskeisara.Klárir ¡ djammið

22. Lalli "großartig" í Ottendorf

 

Um nóttina var dvalið í fjallahóteli einu og um morguninn síðan ekið til Ottendorf- Okrilla, smábæjar sem byggði afkomu sína nær einvörðungu á glerverksmiðju sem meðal annars seldi afurðir sínar til Íslands.
Félagið Chemia, sem við kepptum við, lék í 1. deildinni þýsku og gekk til leiks óstyrkt. Nú náðu piltarnir okkar sér virkilega vel á strik, sendi Guðmundur heim. Völlurinn hefði líka verið ágætur og ekkert sem amaði að. Okkar menn hefðu leikið mjög góðan körfuknattleik, við mikinn fögnuð áhorfenda, og sigrað 83:53 eftir að hafa verið 44:27 yfir í hálfleik.
Lárus Lárusson var okkar langbesti maður, sagði Guðmundur, og vakti oft aðdáunaróp áhorfenda með leik sínum. Einar Matthíasson hefði einnig leikið ágætlega, unnið mjög vel með Lárusi og náð hæstu stigatölu okkar í leik í ferðinni eða 28 stigum, einu stigi betur en besti Þjóðverjinn, Samer. Í mikilli veislu okkur til heiðurs um kvöldið hefði Guðmundur verið mikið spurður um hagi okkar, einkum þó Lárusar sem allir vildu vita sem mest um. "Nummer siebzehn war Großartig", hljómaði oft þetta kvöld.


Helgi og Gunther

23. Sigur í Lichtenstein

Snemma næsta morgun var haldið hátt á annað hundrað kílómetra leið um meðal annars Halle til bæjarins Lichtenstein til keppni við BSG Fortschritt, en aðalmaður þess félags var Neubert sá sem verið hafði annar fararstjóra Þjóðverjanna í Íslandsheimsókninni. Félagið var ekki mjög sterkt en hafði í tilefni komu okkar styrkt lið sitt  með  þremur  leikmönnum  frá  Leipzig  og einum  frá  Berlín. 
ÍR-ingarnir  sigruðu þó örugglega þótt þeir léku ekki jafnvel og daginn áður, sagði Guðmundur Þórarins í fréttasendingu heim. Sem oft áður hefðu þeir Lárus og Þorsteinn átt besta leikinn.


Á ferðalagi

 

24. Meiri leir í Leipzig

Um morguninn var svo haldið tímanlega aftur til Leipzig þar sem við áttum að leika síðasta leikinn í ferðinni gegn gestgjöfum okkar klukkan tvö síðdegis. Gefum Guðmundi aftur orðið: "Sjöundi og síðasti leikurinn í Þýskalandi fór svo fram í Leipzig gegn gestgjöfunum, S.C. Wissenschaft DHfK. Lofað hafði verið að hann færi fram innanhúss. Ekki urðu menn glaðir þegar fréttin barst um að leika ætti úti þar sem lofað hafði verið innanhússleik. Þrátt fyrir áköf mótmæli okkar fór leikurinn fram úti og lyktaði með sigri gestgjafa okkar, 77:73."
Þjóðverjarnir unnu fyrri hálfleikinn með 33:24 við þann síðari með 49 stigum gegn 44. Við komumst um tíma tveimur stigum yfir í síðari hálfleik en segja má að sól og hiti hafi bjargað deginum hjá Þjóðverjunum. Úrslit leiksins sagði Guðmundur samt hafa verið mikinn sigur fyrir okkur í ljósi þess bursts sem við höfðum mátt þola af hálfu þýsku gestanna heima á Íslandi árið áður. Þjóðverjarnir hefðu líka látið þau orð falla eftir leikinn að okkur hefði farið ótrúlega mikið fram á ekki lengri tíma. Guðmundur sagði að í leiknum hefði borið mest á Lárusi og Þorsteini, sem á köflum hefðu leikið eins og englar, og einnig hefði Guðmundur Aðalsteinsson vakið athygli fyrir góðan leik og verið bæði sem klettur í vörn og eldsnöggur í sókn.


Við Lauchhammer Werk

 

25. Ómetanleg reynsla

 Guðmundur fararstjóri endar á hugleiðingum í þeim dúr að eftir sjö leiki, fjóra utanhúss sem allir töpuðust, og þrjá innanhúss sem tveir unnust, væri augljóst að til að Íslendingar gætu náð langt í körfuknattleik þyrftu þeir að fá utanhússvelli til að æfa á um sumartímann til að geta vanist jarðveginum og spili og skotum í vindi. Einnig þyrftum við að æfa upp aukinn hraða í sókn og vörn. Hvað knatttækni og leikskipulag snerti stæðum við Þjóðverjunum vel á sporði en í hraða værum við langt á eftir. Vinna þyfti að því að bæta úr því.
 En hvað sem öðru líður má bóka að ferðin hafi verið gott innlegg í körfuboltaferil allra þeirra sem þátt tóku í henni og vafalaust veitt þeim ómetanlega reynslu sem þeir hefðu vart hlotið annars. Hvort hún hefur lagt grunninn að velgengni ÍR næstu árin skal ósagt látið en hún hefur vissulega ekki spillt fyrir.


Haukur, Hólmsteinn, Doddi, Helgi og Mummi ¡ Leipzig

 

26. Köben klikkar ekki

Leipzig var kvödd á brautarstöðinni þaðan sem við tók löng og þreytandi lestarferð aftur til Warnemünde og Kaupmannahafnar en Gunnar Oddur kvaddi á leiðinni og hélt til Berlínar. Áður en við yfirgáfum landið reyndum við að eyða þeim austurþýsku mörkum sem við höfðum meðal annars fengið frá gestgjöfum okkar fyrir kaffið og sígaretturnar en fundum fátt til að kaupa. Það voru þá helst forláta loftvogir, sem þjóna sumar enn eigendum sínum, góðar myndavélar og vodka.
Í Kaupmannahöfn lékum við einn leik við Danmerkurmeistara Efterslægten og hvort sem þreytu var um að kenna eða öðru steinlágum við 33-57. Eyddum við nokkrum dögum í góðu yfirlæti og blíðskaparveðri í borginni við sundið.


Einar, Helgi og Immi ¡ Köben

 

27. Skroppið til Hamborgar

Þar sem í þá daga kostaði ekkert aukalega að fljúga áfram frá Kaupmannahöfn til Hamborgar skruppum við einn daginn til vestur-þýsku hafnarborgarinnar miklu, lituðumst um í borginni og skoðuðum meðal annars Planten und Blomen þar sem við borðuðum kvöldverð.


Á leið til Hamborgar

 

28. Flogið norður vegna þoku

Þegar heim kom frá Kaupmannahöfn eftir millilendingu í Glasgow var ekki lendandi hér sunnanlands vegna þoku svo stefnan var tekin á Egilsstaði. En þar reyndist líka vera blindþoka svo síðasti möguleikinn var að lenda Akureyri. Það tókst og eyddum við nóttinni á Hótel KEA við heldur kröpp kjör því fyrir voru á Akureyri farþegar tveggja Loftleiðavéla og því allt gistirými upptekið.


Leipzig 1959

 

29. Skolfið undir borðdúk Akureyri

Við fengum því engin rúm til að sofa í heldur bara stóran og kaldan matsal með dúkuðum borðum. Fáum varð því svefnsamt þessa síðustu nótt ferðarinnar þó svo að flugstjórinn okkar splæsti á okkur viskíflösku til að létta okkur vistina, sjálfsagt í þeirri trú að við værum við skál af því við höfðum nokkrum sinnum tekið lagið á leiðinni. En það var auðvitað mesti misskilningur enda hafði enginn úr okkar ferðalúna hópi lyst á þeim þunna þrettánda, viskíinu. En sem dæmi um ástandið þessa nótt má nefna að sumir reyndu að snúa saman bökum undir borðdúkum á gólfinu til að reyna að koma dúr á auga.


Leipzig Sporthalle 1959

 

30. Allt er gott sem endar vel

En flugstjórinn bætti svo óvænt fyrir þessar afspyrnuklénu, en vafalaust óviðráðanlegu trakteringar, á heimleiðinni með því að bjóða okkur tveimur og tveimur í senn fram í stjórnklefa flugvélarinnar að njóta fagurs útsýnisins yfir hálendið með flösku af Tuborg í hendi. Það var vissulega endapunktur við hæfi á góðri ferð.
Mótherjar 1959[Til baka]
[Inngangur]