hertz-hvitur_grunnur

BootCamp

Serrano

jako

landsbankinn

Subway

 

atlas

netto

Bros

tm

Portfarma

Auðmerkt

II. hluti
Austur-Þýskalandsheimsókn ÍR 1959
II. hluti
[I. hluti - II. hluti - III. hluti]


11. Í Leipzig beið glæsivilla

Til Leipzig var komið undir kvöld og ekið rakleiðis til tveggja hæða glæsivillu, með mörgum herbergjum, stórum matsal og víðáttumiklum garði. Það var rúmt um okkur alla, eldabuskur í eldhúsinu og bíll til reiðu að aka okkur hvert sem fara þurfti. Fæðið var gott en að vísu heldur einhæft og ekki alltaf nóg handa matlystugum og þurftafrekum íþróttamönnum. En greinilegt var að Þjóðverjarnir vildu launa okkur vel þann góða viðurgerning sem þeir höfðu notið í heimsókn sinni til Íslands. Við villuna var verönd þar sem við sátum gjarnan á kvöldin og drukkum 1-2 bjóra og tókum líka stundum lagið, jafnvel á þýsku eins og þessi erindi úr ljóði Heines: Am Brunnen von dem Tore, da steht ein Lindenbaum. Ich möchte am liebsten sterben... o.s.frv.


Villan

12. III Deutsches Turn und Sportfest í Leipzig
Í Leipzig gaf að líta feiknin öll af fólki í íþróttabúningum því í borginni var að hefjast III Deutsches Turn und Sportfest, árleg stóríþróttahátíð Austur-Þjóðverja. Þar var keppt í körfubolta, handbolta, knattspyrnu, sundi, sundknattleik, frjálsíþróttum, fimleikum, hnefaleikum, júdó, róðri, bogfimi, skotfimi og vallarhokkí, listskautahlaupi og ísknattleik, með öðrum orðum öllum greinum íþrótta sem nöfnum tjáir að nefna nema skíðaíþróttinni. Auk þess voru haldnar miklar fimleikasýningar á hátíðinni með allt að 1900 manns á vellinum í senn

Það var því ekki að undra þótt hvarvetna gæfi að líta ungt fólk í nýjum íþróttabúningum en í Leipzig bjuggu þá um 730 þúsund manns en talið að um 200 þúsund íþróttamenn- og konur hefðu tekið þátt í hátíðinni þessa daga. En auk heimamanna var það íþróttafólk frá meðal annars Tékkóslóvakíu, Rússlandi, Finnlandi, Marokkó, Túnis, Víetnam, Kína, Írak, Kóreu, Sýrlandi, Póllandi og Íslandi, auk 17.000 Vestur-Þjóðverja sem tóku þátt í mikilli skrúðgöngu lokadag hátíðarinnar.

Við tókum hins vegar heldur endasleppan þátt í setningarathöfn íþróttahátíðarinnar með því að ganga með her íþróttafólks í skrúðgöngu í áttina að íþróttaleikvanginum en áður en þangað var komið var okkur kippt út úr skrúðgöngunni vegna þess að við vorum uppábúnir í frökkum en ekki í íþróttagöllum eins og allir hinir. Þessi meðferð þótti okkur vægast sagt niðurlægjandi og að minnsta kosti Ingi Þór og Gunni Pet sátu heima í mótmælaskyni frekar en að kyngja slíkri framkomu. En okkur bauðst svo að sitja uppi í stúku og horfa á setningarhátíðina niðri á vellinum og hlusta meðal annars á forseta landsins halda ræðu.


Setningin ¡ Leipz

13. Vanir kajakræðarar Íslendingar
Þjóðverjarnir voru óþreytandi að gera okkur heimsóknina sem ánægjulegasta, keyrðu okkur um allar jarðir og buðu okkur meðal annars á mikinn landsleik Austur-Þjóðverja og Tékka í knattspyrnu sem lyktaði með sigri heimamanna, 3-1, og í kajakróður á ánni Pleisse sem rennur gegnum Leipzig. Þar var gerð krafa um að þeir sem leigðu kajak skildu skilríki sín eftir til tryggingar skilum á fleyinu. Við höfðum auðvitað skilið vegabréfin eftir heima í villunni en þegar Leudert sagði konu í afgreiðslunni að við værum frá Íslandi svaraði hún eitthvað á þá leið að þá væri allt í lagi því Íslendingar hlytu að kunna að fara með kajak.


Mótssetningin

14. Leirvöllurinn erfiður
Þjóðverjarnir höfðu í tengslum við hátíðina efnt til fjölþjóðlegs körfuboltamóts á útivelli við íþróttaháskólann í Leipzig þar sem við vorum eitt fjögurra þátttökuliða. En þótt við hefðum sumir æft á útikörfur á Melavellinum og við Gaggó Aust var alvöruleikur á slíkum völlum okkur framandi. Þegar við fórum á æfingu á útivellinum gekk hún líka heldur brösuglega því okkur reyndist mjög erfitt að fóta okkur á rauða sallanum á vellinum. Hins vegar vorum við vanir kaldri sturtu eftir sumarlangar æfingar á Hálogalandi og varð því ekki skotaskuld úr því að demba okkur í ískalda sundlaug að leik loknum.

Mótherjar okkar í þessu móti voru landslið Austur-Þýskalands og Finnlands og úrval úr rússnesku herjunum í Austur-Þýskalandi. Hermennirnir kepptu undir merkjum ASK og höfðu heimild til  að keppa í sérhverri grein íþrótta og öllum mótum sem fram fóru í Austur-Þýskalandi á þessum tíma.


Á leið í leik

15. Göróttur ávaxtasafi og veikindi
Guðmundur Þórarinsson sagði í pistli heim: "Lítil von er til mikils árangurs gegn svo sterkum liðum og hér er um að ræða, og hvað þá í fyrstu keppni utanhúss. Piltarnir eru samt ákveðnir í að gera sitt besta og verður þá ekki hægt að krefja þá um meira. Piltarnir hafa það yfirleitt ágætt, nokkrir eru þó lasnir. Mataræðisbreytingin og hitinn um og yfir 25° á celsíus hefur lagst illa í þá

Einar Matt skýrir hins vegar krankleikann svo að þeir Helgi, sem veikastir urðu allra í hópnum, hafa þyrst svo í hitanum að þeir hafi drukkið ávaxtasafa sem þeir fundu í borðstofunni og skömmu síðar fengið þennan heiftarlega niðurgang. Læknir sem kvaddur var til sagði að í saftinni væru leifar af skordýraeitri sem úðað væri á ávaxtaekrurnar og heimamenn væru löngu orðnir ónæmir fyrir en hefði stundum þessar afleiðingar hjá óvönum.

Til marks um ástand sjúklinganna má nefna að Helgi, sem var hvað verst okkar allra við vespurnar sem þarna flögruðu um allt, hreyfði hvorki legg né lið þótt þau leiðu kvikindi sprönguðu um koddann hjá honum

Ekki efldi það lið okkar að missa tvo af okkar bestu mönnum í rúmið þegar þörf var fyrir alla okkar krafta enda er skemmst frá því að segja að okkur gekk heldur illa í þessu alþjóðlega móti á III Turn og Sportfest í Leipzig. Eins og flestir höfðu búist við vann austurþýska landsliðið mótið, þó eftir harða keppni við landslið Finna. Úrslit einstakra leikja urðu annars þau að austurþýska landsliðið vann Rússaherinn 54:43, ÍR með 61 stigi gegn 22 og landslið Finna 59:48, Finnarnir unnu ÍR 48:14 og Rússana 37:28 og Rússarnir unnu loks ÍR með 54 stigum gegn 28.


Ingi Þór og Doddi fyrir leik

16. Eins og beljur á svelli
Guðmundur fararstjóri sagði í öðrum pistli: "ÍR-ingarnir voru ekki svipur hjá sjón miðað við leikni þeirra heima. Mótstaðan var geysihörð. Allir leikirnir fóru fram utanhúss á völlum þar sem efsta lagið er fastur, harður sandleir. Piltunum gekk ákaflega illa að fóta sig. Runnu þeir hvað eftir annað og duttu og misstu þannig oft gefin tækifæri. Einnig var eins og þeir gætu ekki reiknað út fjarlægð körfunnar rétt þar sem engan vegg var við að miða og einnig var golan til trafala." Guðmundur bætti við að spilið hafi þó lagast með hverjum leik og skotin orðið nákvæmari.

Síðasti leikurinn, á móti Rússunum, hefði þó verið mun ójafnari en tölurnar sýndu enda Rússarnir vanir að spila körfubolta undir beru lofti. Bestu menn í leikjunum voru að hans sögn Þorsteinn Hallgrímsson og Lárus Lárusson.

Því má bæta hér við að slíkur var hitinn meðan á mótinu stóð að sprauta þurfti völlinn í hálfleik til að jarðvegurinn héldist kyrr á sínum stað. 

Það var vissulega skarð fyrir skildi að Einar Matthíasson og Helgi Jóhannsson skyldu báðir liggja veikir mest allt mótið en þeim jókst svo stöðugt ásmegin í þeim leikjum sem eftir voru.


Hólmsteinn ¡ uppkasti

17. Keppnisför til suðurs
Að útimótinu loknu var haldið suður á bóginn í langa fjögurra daga keppnisferð. Leikið var á þremur stöðum, í Lauchhammer Ost, Ottendorf-Okrilla og Lichtenstein, áður en snúið var aftur til Leipzig og síðasta leiksins í heimsókninni, gegn gestgjöfum okkar í DHfK. Voru aðstæður á ferðinni mun líkari því sem við áttum að venjast á Hálogalandi og í ÍR-húsinu heima enda árangurinn líka mun betri í þeim leikjum en viðureignum okkar í Leipzig.


Helgi, Mummi, Doddi, Lalli og Immi

18. Ekki málið að bjarga sér á þýsku
Gist var á heimilum mótherjanna á hverjum stað og mættum við hvarvetna mikilli gestrisni. Voru dæmi um að foreldrar gengju úr rúmum sínum til að sem best færi um okkur gestina. Heimsókn á einkaheimili veitti líka kjörið tækifæri til að spreyta sig á þýskunni þótt misjafnlega gengi svo sem að halda uppi samræðum. En Ingi Þór sagði eftir eina slíka heimsókn að það væri sko enginn vandi að bjarga sér á þýsku. Maður bara hlustaði og skyti svo inn við og við: Altso, eða: Doch, og ef viðmælandanum væri mjög mikið niðri fyrir: Doch, doch, og hristi svo hausinn.

Þjóðverjarnir voru skiljanlega mjög orðvarir um hagi sína en opnuðu sig gjarnan eftir nokkra bjóra. Þeir létu þá stundum í ljósi þá ósk að ástandið væri annað og betra í landi þeirra en raun bæri vitni. En bættu svo gjarnan við: Aber das sagt man nicht.


Mummi í vítaskoti

19. Innileikirnir unnust tveir
Mánudaginn 17. september var sem sagt lagt upp í Garantinum í keppnisferð allt suður undir landamæri Tékkóslóvakíu og fyrst borið niður nokkra tugi kílómetra sunnan Leipzig og leikið við Motor Lauchhammer - Ost 74 þá um kvöldið. Lauchhammer var á stærð við Reykjavík og aðaltekjulindin annars vegar feiknastór þungavinnuvélaverksmiðja og hins vegar verksmiðja sem framleiddi olíu og önnur efni úr brúnkolum


Frá mótinu

20. Sperruraunir í Lauchhammer - Ost
Ferðin gekk vel og voru móttökur allar til fyrirmyndar. En keppt var í gamalli skemmu, sem breytt hafði verið í íþróttahús, í yfir þrjátíu stiga hita í forsælu. Okkur gekk ágætlega í þessum leik nema hvað það olli okkur miklum erfiðleikum hve lágt var undir loft í húsinu. Mörg skot okkar lentu í allt of lágum sperrum og var þá boltinn eðlilega dæmdur af okkur. Eina vonin var að skjóta úr hornunum á milli sperranna en vonlaust að skjóta úr venjulegum færum fyrir langskot. Við töpuðum þessum leik með 52 stigum gegn 64 eftir að staðið hafði 24:31 í hálfleik.

Eftir leikinn sagði Guðmundur Þórarinsson að liðið hefði yfirleitt verið nokkuð jafnt, en þó hefðu þeir Lárus, Þorsteinn, Einar Matthíasson og Helgi Jóhanns borið af. Einkum hefði leikur Lárusar vakið mikla athygli. Með liði Motor Lauchhammer lék lánsmaður úr austurþýska landsliðinu, Scholz að nafni, sem var feiknagóður og skoraði 28 stig fyrir Lauchhammer. Um kvöldið var svo efnt til mikils kvöldverðar okkur til heiðurs þar sem okkur var vísað til sætis dreift um salinn milli heimamanna svo enn frekar reyndi á þýskukunnáttuna. Að borðhaldinu loknu var slegið upp balli og varð úr hið besta skemmtun sem stóð langt fram á nótt.


Frá mótinu

[Til Baka]

[Áfram]