hertz-hvitur_grunnur

BootCamp

Serrano

jako

landsbankinn

Subway

 

atlas

netto

Bros

tm

Portfarma

Auðmerkt

I. hluti

Austur-Þýskalandsheimsókn ÍR 1959
I. hluti

[I. hluti - II. hluti - III. hluti]

1. Inngangur

Þann 9. ágúst 1959 lögðu níu körfuknattleiksmenn úr ÍR, ásamt tveimur KFR-mönnum og fararstjóra, upp í ferð til Austur-Þýskalands. Var þar verið að endurgjalda heimsókn liðs íþróttaháskólans í Leipzig, Sportclub Wissenschaft DHfK, til Íslands árið áður. Það eru því liðin fimmtíu ár síðan sú frábæra ferð var farin og því einhvern tíma minna tilefni til að fagna.
Þátttakendur í förinni til Austur-Þýskalands voru: Einar Matthíasson, Einar Ólafsson, Guðmundur Aðalsteinsson, Guðmundur Þorsteinsson, Guðmundur Þórarinsson fararstjóri, Gunnar Petersen, Gunnar Oddur Sigurðsson, Haukur Hannesson, Helgi Jóhannsson, Hólmsteinn Sigurðsson, Ingi Þór Stefánsson, Lárus Þ. Lárusson og Þorsteinn Hallgrímsson.


Æft var á Melavelli fyrir ferðina

2. Þriðja utanferð körfuboltamanna

 Mun þetta hafa verið þriðja ferð íslensks körfuknattleiksliðs til útlanda. Lið frá ÍS lék í apríl 1957 fjóra leiki við lið háskóla á Norðurlöndunum, tapaði í Gautaborg en sigraði í Lundi og tvisvar í Kaupmannahöfn, og íslenska landsliðið lék sinn fyrsta landsleik gegn Dönum 16. maí 1959 í Kaupmannahöfn en beið lægri hlut, 31:48.


Á Arlanda flugvelli

 

3. Heimsókn Þjóðverjanna 1958

 Tildrög heimsóknar Austur-Þjóðverjanna voru þau að í tengslum við fimmtíu ára afmæli ÍR 1957 fóru þeir Helgi Jóhannsson, Ingi Þór Stefánsson og Gunnar Petersen að kanna möguleika á því að fara og spila við eitthvert lið erlendis, með skiptiheimsókn í huga. Þjálfari ÍR á þeim tíma, Ewald Mikson, benti þeim á þennan austurþýska íþróttaháskóla í Leipzig, DHfK, sem reyndist hafa áhuga á samstarfi. Af skiljanlegum ástæðum lagði Mikson ekki í að fara með okkur til Austur-Þýskalands svo arftakar hans í þjálfarastarfinu, Einar Ólafsson og Helgi Jóhannsson, önnuðust liðsstjórnina í ferðinni. En af þessu spratt fyrsta heimsókn evrópsks körfuknattleiksliðs til Íslands, sem eðlilega vakti mikla athygli, og síðan för okkar til Austur-Þýskalands árið eftir til að endurgjalda heimsóknina.

 
Götuboloti

 

4. Þriðja körfuboltaheimsóknin

Áður höfðu komið tvö lið frá Bandaríkjunum til Íslands. Fyrst lið American University Eagles frá Washington, DC, með hæsta körfuknattleiksmann heims innanborðs, 216 sentímetra risa. Eagles áttu að leika við ÍR á Hálogalandi 3. janúar 1952 en fresta varð leiknum til næsta dags þar sem vatnið reyndist frosið í hitaleiðslum hússins og því nánast úlpuveður þar inni. En Eagles unnu leikinn 4. janúar 64:16.
NBA-meistarar Syracuse Nationals komu svo 1956 og léku nokkra sýningarleiki sem þeir buðu meðal annars tveimur félaga okkar í Leipzig-förinni, Helga Jóhannssyni og Gunnari Oddi Sigurðssyni, að taka þátt í.
Þjóðverjarnir komu svo 5. október 1958, tíu leikmenn, tveir fararstjórar og þjálfari. Haldið var kvöldverðarboð þeim til heiðurs þar sem formaður ÍR, Jakob Hafstein, bauð gestina velkomna og fararstjóri þeirra, Werner Neubert, þakkaði móttökurnar.
Morgunblaðið sagði meðal annars af þessu tilefni að þetta væri skemmtileg tilraun því íslenskir körfuknattleiksmenn vissu vart hvar þeir stæðu í íþrótt sinni og ekki síst þess vegna yrði gaman að sjá leiki þeirra við þetta reynda, þýska lið.


Doddi, Mummi, Einar og Helgi á Bellevue

 

5. Ingi og Hrefna fluttu út

Ekki hafði deildin ráð á að láta hina erlendu leikmenn gista á hóteli og fluttu því formaðurinn, Ingi Þór, og Hrefna kona hans, úr íbúð sinni við Hjarðarhaga í tíu daga svo hægt væri að hýsa Þjóðverjana þar meðan á heimsókninni stæði. Ingi Þór fékk svo þýskumælandi konu til að sjá um heimilishaldið og eldamennskuna fyrir gestina. Rúm voru fengin að láni hjá fyrirrennara Almannavarna, Loftvarnanefnd Reykjavíkur - hjá Rauða krossinum segja sumir - og komið fyrir í íbúðinni svo úr varð hin besta gistiaðstaða fyrir gestina. Þjóðverjunum þótti þessi viðurgerningur mikil rausn hjá, að því er þeir héldu, "hinu opinbera". Trúðu þeir því ekki að þetta væri algert einkaframtak okkar ÍR-inga og að við fengjum enga peninga frá ríkinu til að standa straum af kostnaðinum. Þjóðverjarnir endurguldu líka rausnarlega veittar móttökur þegar við síðan komum til Austur-Þýskalands og gerðu að öllu leyti mjög vel við okkur.


Gunnar Oddur Sigurðsson

6. Varist auðvaldsglýjuna

Konan sem annaðist Þjóðverjana gaf skýrslu um allt sem gerðist í íbúðinni, eins og það að á hverjum morgni héldi pólitískur fararstjóri ræðu yfir mannskapnum með áherslu á að menn skyldu nú ekki trúa öllu sem þeir sæju hér. Auðlegð Íslendinga væri bara gerviauðlegð sem ekki félli að hinum kommúnistíska rétttrúnaði.
Farið var með Þjóðverjana í ökuferðir, meðal annars upp á Akranes að skoða Sementsverksmiðjuna og austur fyrir fjall að sjá Gullfossi og Geysi. Voru þeir margir með góðar myndavélar og tóku mikið af myndum.  Þeir hrifust mjög af náttúru landsins og létu óspart í ljósi aðdáun á fegurð náttúrunnar sem hvarvetna blasti við. Var líka víða stoppað til að hleypa þeim út til að taka myndir.


Haukur og Helgi á Pleisse

7. Rómaður heiðarleiki landans

Eftir gönguferð einn daginn um miðbæinn uppgötvaði einn Þjóðverjanna þegar komið var inn í Voga að hann hafði gleymt forláta myndavél á grindverki niðri við tjörn. Hann var að vonum heldur leiður og bjóst við að sjá myndavélina sína aldrei aftur, sem hefði auðvitað verið tilfinnanlegt tjón. En ákveðið var að renna niður í bæ og athuga hvort myndavélin fyndist ekki, og viti menn, þar hékk hún óhreyfð á grindverkinu.  Það þótti Þjóðverjunum með miklum ólíkindum.


Ingi Þór

8. Gestirnir unnu alla leikina

Hinir nýbökuðu bikarmeistarar Austur-Þýskalands léku hér fjóra leiki við sér eflaust framandi aðstæður í íþróttahúsinu smáa, Hálogalandi við Suðurlandsbraut, sem hafði þó allt verið tekið í gegn vegna heimsóknarinnar, en að auki léku þeir í Keflavík. Þjóðverjarnir mættu ÍR, ÍKF, KFR og pressuliði og unnu alla leikina með miklum yfirburðum. Lögðu þeir ÍR með 73 stigum gegn 35, ÍKF 81:38, KFR með 62 stigum gegn 46 og loks pressuliðið með 56 stigum gegn 36.


Haukur, Helgi og Steini

9. Titringur vegna fararstjóramála

Austur-Þýskalandsheimsóknin olli miklum titringi innan ÍR sem varð meðal annars til þess að fráfarandi formaður, Jakob Hafstein, sagði sig úr félaginu. Hann dró þó úrsögn sína til baka seinna. En Jakob hafði stutt þetta framtak okkar með ráðum og dáð og líka tekið virkan þátt í móttöku Þjóðverjanna 1958. Að vísu var fjárhagur félagsins mjög bágborinn um þær mundir og því ekki mikla peninga að hafa frá ÍR en þó hafði félagið til ráðstöfunar ferðastyrk sem að minnsta kosti handknattleiksdeild ÍR sótti líka um en fékk ekki þar sem við höfðum verið handboltamönnunum fyrri til.
En Albert Guðmundsson var orðinn formaður ÍR þegar við fórum utan 1959 og hann þvertók af einhverjum ástæðum fyrir að Jakob Hafstein yrði fararstjóri eins og við óskuðum eftir og eðlilegast hefði verið eftir það sem á undan var gengið. Stjórn félagsins ákvað í framhaldi af því að einhver stjórnarmanna yrði fararstjóri og fyrir valinu varð Guðmundur Þórarinsson, frjálsíþróttaþjálfari ÍR, sem svo vildi til að var sá eini sem átti heimangengt á þessum tíma.
En ekki þarf að orðlengja það að Guðmundur stóð sig með mikilli prýði, reyndist gamansamur og þægilegur en jafnframt röggsamur náungi sem myndaði strax góð tengsl við hópinn. Guðmundur sendi fréttir heim um ferðir okkar sem hafa reynst drjúg upplýsingalind við samningu þessarar ferðasögu.


Immi og Lalli

10. Austur-Þýskalandsheimsóknin

 En aftur að Leipzigförinni. Flogið var að morgni 9. ágúst með millilendingu í Gautaborg til Kaupmannahafnar og gist þar tvær nætur á gömlu hóteli við Helgolandsgade. Daginn eftir var mikið blíðskaparveður svo ákveðið var að fara á baðströnd, Bellevue í áttina til Helsingör.
Daginn eftir var svo ekið með lest til Gedser á suðurodda Falsturs og þaðan siglt með ferju yfir til Warnemünde í Austur-Þýskalandi. Það eitt var eftirminnilegt við þá siglingu að yfir þýsku ströndinni logaði himinninn af eldingum eftir heitan ágústdag í Norður-Þýskalandi. En til Warnemünde var komið undir kvöld og við tók ströng vegabréfa- og tollskoðun. Að beiðni Þjóðverjanna höfðum við tekið með okkur ógrynni af kaffi og sígarettum og vorum við af þeim sökum teknir afsíðis og spurðir út í þessa vöruflutninga. Þegar tollvörðunum þótti málið skýrt var okkur hleypt inn í landið. Sest var inn í fjórtán manna Garant, heldur þröngan farkost fyrir körfuknattleiksmenn, sem Günther Leudert ók, fyrirliði gestgjafa okkar. Var ekið sem leið lá til Wesser-íþróttaskólans, um 40 kílómetra fyrir sunnan Warnemünde, og gist þar um nóttina.
 Austurþýska íþróttasambandið rak á þessum tíma níu íþróttaskóla en af þeim var DHfK, Deutsche Hochschule für Körperkultur, í Leipzig langstærstur. Þar var meðal annars stórt fimleikahús, fullkominn frjálsíþróttavöllur, knattspyrnuvöllur, þrír körfuboltavellir, þrír blakvellir, tennisvöllur og utanhúss-hnefaleikahringur, auk svefnhúss, skrifstofuhúss, matsalar og tveggja samkomu- og kennslusala.
 Eftir morgunverðinn var haldið áfram suður á bóginn milli Vestur-Berlínar og járntjaldsins. Heldur var eyðilegt um að litast á leiðinni, sveitabæir í niðurníðslu, óhrein þorp og fátt fólk á ferli. Verslanir voru fáar í þorpum og bæjum og virtust allar hálftómar af varningi. Á milli þorpa og bæja voru vegirnir yfirleitt ágætir en inni í borgum og þorpum voru þeir víða mjög slæmir og oft líka sundurgrafnir svo krókaleiðir þurfti að fara til að komast leiðar sinnar. Skilti með orðinu "Umleitung" blöstu líka þarna víða við.


Klárir í slaginn

[Áfram]