ao

hertz-hvitur_grunnur

jako

rafdis-logo

Barna- og unglingaráð

Starfslýsing
Barna- og unglingaráðs Knattspyrnudeildar ÍR ( BUR).1. BUR heldur utan um starfsemi yngri flokka ÍR (2. - 8. fl. drengja og 3. - 8. fl. stúlkna) í samráði við stjórn knattspyrnudeildar og framkvæmdastjóra, en stjórn knattspyrnudeildar hefur æðsta ákvörðunarvald innan knattspyrnudeildar ÍR. BUR annast ráðningu yfirþjálfara og gerir við hann ráðningarsamning.

2. BUR skal á faglegan hátt stuðla að markvissri uppbyggingu á knattspyrnu barna og unglinga á vegum ÍR, tryggja jafnræði í starfi kvenna- og karlaflokka hjá ÍR, skipuleggja starfið og skilgreina markmið þess og móta þannig heildarstefnu sem hægt er að vinna skipulega eftir.

3. BUR skal hafa að leiðarljósi stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um íþróttir barna og unglinga.

4. BUR er upplýsingaskylt gagnvart stjórn knattspyrnudeildar ÍR og aðalstjórn ÍR.

5. BUR annast fjárhagslegan rekstur yngri flokkanna, greiðir laun yfirþjálfara, þjálfara. Þá leggur unglingaráð til æfingavesti, bolta, boltanet, keilur, sjúkratöskur og annan sameiginlegan búnað. Foreldraráð og BUR vinna saman að fjáröflun vegna keppnisbúninga og sameiginlegra auglýsinga á búningunum. Auglýsingatekjur ganga til BUR sem notar fjármunina til reksturs á yngri deild.

6. BUR skal styðja þjálfara ÍR í starfi sínu og jafnframt veita þeim nauðsynlegt aðhald.

7. Yfirþjálfari kemur upplýsingum til BUR um störf þjálfara yngri flokka félagsins. Verði á einhvern hátt misbrestur í starfi og hátterni þjálfara, skal BUR boða viðkomandi þjálfara og yfirþjálfara á fund til að ræða málin og áminna hann ef þurfa þykir. Verði enn vart við ónægju með starf þjálfara getur unglingaráð sagt upp samning við hann að höfðu samráði við yfirþjálfara. (sjá starfslýsingu þjálfara og yfirþjálfara).

8. BUR skal taka þátt í skipulagningu stærri fjáraflana og halda utan um þær í samráði við yfirþjálfara og foreldraráð viðkomandi flokka. Í upphafi starfsárs að hausti skal unglingaráð gera stjórn knattspyrnudeildar ÍR grein fyrir áætluðum fjáröflunum.

9. BUR skal í upphafi starfsárs aðstoða yfirþjálfara við útgáfu á handbók fyrir þjálfara.

10. BUR og yfirþjálfari sjái um kynningu á yngri flokkum í leikskrá (meistaraflokks) knattspyrnudeildar sem kemur út í upphafi leiktíðar að vori.

11. BUR og yfirþjálfari stuðli að því að 4.fl. karla og kvenna fari annað hvert ár á alþjóðleg mót til keppni og sjá til þess að fjáraflanir séu skipulagðar tímanlega og þess gætt að þær séu sem hagkvæmastar.

12. BUR veiti foreldraráðum einstakra flokka samþykki vegna fyrirhugaðra keppnisferða innanlands eða utan sem farnar eru að frumkvæði þeirra.

13. BUR skipuleggur allar ferðir iðkenda til knattspyrnufélaga, íslenskra og erlendra, eða á mót erlendis í samráði við foreldraráð og þjálfara.

14. BUR skal funda með foreldraráðum allra flokka að minnsta kosti tvisvar á ári þar sem farið er yfir starfið.

15. BUR skal reyna af fremsta megni að skapa jákvæða ímynd barna- og unglingaknattspyrnu á vegum ÍR, bæði í karla- og kvennaflokkum og stuðla að drengskap iðkenda, jafnrétti, vináttu og umburðarlyndi við náungann.

16. BUR setur reglur um framkomu leikmanna á æfingum, í leikjum, keppnisferðum og gagnvart félaginu í samráði við yfirþjálfara. Séu þær reglur brotnar skal yfirþjálfari veita þeim áminningu, en endanleg ákvörðun um framhaldið er í höndum barna og unglingaráðs knattspyrnudeildar ÍR.

17. Komi upp óleysanlegur ágreiningur á milli BUR og foreldraráðs, skal stjórn knattspyrnudeildar skera úr um málið.

18. BUR skal sjá til þess að þjálfarar sæki þjálfaranámskeið á vegum KSÍ og að þjálfarar séu með þau réttindi sem KSÍ setur fram sem skilyrði í þjálfun barna og unglinga.

19. BUR sjái til þess að þjálfarar fái nauðsynlegan klæðnað merktan ÍR til að klæðast á æfingum, í leikjum og í keppnisferðum.

20. BUR vinni skipulega að fjölgun iðkenda í samráði við foreldraráð, þjálfara og yfirþjálfara.

21. BUR skipuleggur uppskeruhátíð knattspyrnudeildar ÍR ásamt yfirþjálfara og þjálfurum flokka.

22. BUR hvetji til uppbyggilegs félagsstarfs meðal allra yngri flokka knattspyrnudeildar ÍR í samráði við yfirþjálfara, þjálfara og foreldraráð.

23. BUR skipuleggur fræðsludaga fyrir 13-16 ára iðkendur í samvinnu við aðrar deildir innan félagsins. (Knattspyrna er lífsins banki) íþróttasálfræði- / (Tryggjum traustan grunn) næringarfræði-námskeið, (Fyrirhyggja er forvörn) Forvarnir vegna íþróttaslysa.

24. BUR skipuleggur fræðslufundi fyrir foreldra, m.a. um íþróttir og mikilvægi heilbrigðra lífshátta í samráði við fræðsludaga fyrir iðkendur.

25. Fylgi eftir og kynni vímuvarnastefnu ÍR í öllum flokkum.

26. BUR sjái til þess að í lok keppnistímabils skili þjálfarar af sér mati á árangri og framförum. Einnig að þjálfarar skili af sér starfsskýrslu með upplýsingum um þá þætti sem teknir hafa verið fyrir á tímabilinu hvað varðar liðið í heild og leikmenn þess.

27. BUR í samráði við yfirþjálfara komi upplýsingum um yngri flokkastarfið á heimasíðu ÍR og skrifi fréttabréf til iðkenda og foreldra um starfið í félaginu.

28. Í nóvember ár hvert skal BUR skila af sér starfsskýrslu til stjórnar knattspyrnudeildar ÍR um starfsemi ársins í yngri flokkunum og fjárhagsáætlun ársins.

29. BUR vinni að auknu samstarfi allra deilda ÍR og leitist við að tryggja sem best tengsl milli deilda, t.d. hvað varðar meginreglur, stefnu o.fl.

30. BUR stuðlar að markvissri samvinnu milli þjálfara félagsins, bæði í karla- og kvennaflokkum til þess að stuðla að því að allir þjálfarar vinni eftir sömu grundvallarstefnu í knattspyrnu- og uppeldisstarfinu.


ÞÚ MISSIR 100% AF ÞEIM SKOTUM
SEM ÞÚ TEKUR ALDREI
(Micael Jordan)