ao

hertz-hvitur_grunnur

jako

rafdis-logo

Þjálfarar

Starfslýsing
Þjálfarar barna og unglingaráðs (BUR) knattspyrnudeildar ÍR1. Þjálfari er ráðinn af yfirþjálfara knattspyrnudeildar ÍR og skal starfa samkvæmt reglum og ákvörðunum stjórnar og BUR knattspyrnudeildar. Yfirþjálfari er hans æðsti yfirmaður

2. Þjálfarar skulu í samvinnu við BUR, starfsmann aðalstjórnar og yfirþjálfara aðstoða við innheimtu æfingagjalda.

3. Yfirþjálfari ræður aðstoðarþjálfara til starfa í öllum flokkum telji hann þess þörf.

4. Hver þjálfari fær til umráða ákveðinn fjölda af boltum, vestum og annan búnað til æfinga og keppni fyrir viðkomandi flokk, sem hann skal bera fulla ábyrgð á. Honum er jafnframt afhentur lás/lykil að geymsluskáp/herbergi BUR, en skápurinn/herbergið er ætlað til varðveislu á æfingabúnaði.

5. Þjálfari skal vera mættur a.m.k. 10-15 mínútum fyrir auglýstan æfingatíma og ekki fara af æfingu fyrr en allir iðkendur eru farnir af vallarsvæði, a.m.k. 10 mín. eftir að æfingu lýkur. Ef þjálfari forfallast á æfingu skal hann sjá til þess að aðstoðarmaður eða annar staðgengill annist þjálfun á sömu forsendum og greint er frá í starfslýsingu yfirþjálfara (sjá 6.lið).

6. Þjálfari ber ábyrgð á því að leikmenn séu boðaðir á æfingar og skulu í upphafi starfsárs kynna iðkendum og forráðamönnum þeirra skriflega æfingaáætlun (tímasetningu og æfingafjölda á viku). Allar breytingar á æfingatímum skal kynna sérstaklega með dreifiriti eða á vefsíðu knattspyrnudeildar.

7. Þjálfari skal halda mætingaskýrslur í Felix fyrir iðkendur og ganga skilmerkilega frá þeim þannig að hægt sé að byggja á þeim upplýsingum, sem þar koma fram, við innheimtu æfingagjalda. Skýrslur þessar skal skrifstofa ÍR og yfirþjálfari ætíð hafa aðgang að.

8. Þjálfari skal í upphafi starfsárs kynna iðkendum skriflega fyrirsjáanlega þátttöku flokksins í mótum á starfsárinu. Verði röskun á þeirri áætlun skal þjálfari kynna þær breytingar með dreifiriti og á vefsíðu knattspyrnudeildar.

9. Þjálfari skal virða óskir og ákvarðanir vallarstjóra um staðsetningu æfinga og keppnisleikja. Að lokinni æfingu/leik skal þjálfari ganga frá búnaði sem hann notar til æfinga/leiks.

10. Þjálfarar skulu klæðast fatnaði merktum Hummel og ÍR í öllum leikjum á vegum félagsins. BUR leggur til þennan fatnað. Þá er og ætlast til að þjálfarar klæðist fatnaði merktum Hummel /ÍR á æfingum sé þess nokkur kostur og vera að öðru leyti snyrtilegir til fara.

11. Þjálfari skal leitast við að byggja upp sem bestan félagsanda í flokknum í samráði við iðkendur og foreldra/forráðamenn þeirra.

12. Þjálfari skal funda reglulega með foreldraráði um málefni viðkomandi flokks, m.a. um félagsanda, framfarir, fjáraflannir, keppnisferðir og annað sem viðkemur flokknum.

13. Þjálfari skal leggja eftirfarandi skipulag fyrir yfirþjálfara;
a) Í upphafi hausts skal skipuleggja starfsárið í heild í samstarfi við yfirþjálfara, leggja fyrir æfingaáætlun (ársáætlun), æfingaleikjaáætlun, markmið og áherslur í þjálfun fyrir starfsárið.
b) Greinargerð um hvernig þjálfari hyggst vinna skipulega með iðkendur og meta framfarir þeirra, m.a. með umsögnum/mælingum ef kostur er, sbr. þar til gert eyðublað sem yfirþjálfari leggur þjálfara til.
c) Að loknu keppnistímabili metur þjálfari árangur og skilar af sér starfsskýrslu með upplýsingum um þá þætti sem teknir hafa verið fyrir á tímabilinu hjá flokknum og leikmönnum hans (greinargerð um hvern leikmann sbr. Eyðublað sem yfirþjálfari leggur til).

14. Þjálfari komi upplýsingum um úrslit leikja til skrifstofu ÍR eða yfirþjálfara. Þjálfarar skulu sjá um að koma úrslitum inn á vef KSÍ þegar um heimaleiki er að ræða. Skrifstofa ÍR eða yfirþjálfari sendir þjálfara aðgangs- og lykilorð að vef KSÍ á hverju hausti. Þjálfari ber ábyrgð á að lykil- og aðgangsorð týnist ekki, né komist í hendur þeirra sem gætu misnotað vefinn.

15. Þjálfari skal fara þess á leit við foreldraráð að panta ferðir fyrir leikmenn í útileiki (á Íslandsmót) með a.m.k. FIMM daga fyrirvara og tilkynna fjölda þátttakenda. Þegar farið er með flugi skal þjálfari skila nafnalista til foreldraráðs með a.m.k. TVEGGJA sólarhrings fyrirvara. Það er á ábyrgð þjálfara að hafa frumkvæðið að því.

16. Meginreglan varðandi þá flokka sem heyra undir BUR, er að allar styttri ferðir, þ.e. minna en 100 km. frá Reykjavík verði farnar á einkabílum sé þess nokkur kostur. ATH iðkendur greiða sérstaklega fyrir þær ferðir ( 500 – 800 kr ). Ákvörðun tekin af foreldraráði í hvert skipti.

17. Þjálfari og aðstoðarmaður hans bera alfarið ábyrgð á keppnisbúningum flokksins. Þeir sjá um að taka þá með í ferðir og koma þeim á sama stað strax að heimaleik loknum og í seinasta lagi fjórum sólarhringum eftir heimkomu frá útileik. Keppnisbúninga má eingöngu nota í æfinga og keppnisleikjum. Búninga skal geyma á þar til gerðum stað í ÍR-heimili. Þjálfara er heimilt að fá einhvern úr hópi foreldra til að taka að sér búningamál flokksins, en engu að síður er öll ábyrgð í höndum þjálfara.

18. Þjálfari ber ábyrgð á sjúkratösku flokksins og skal ávallt hafa hana meðferðis á æfingum, leikjum og keppnisferðum. Hann gengur reglulega úr skugga um að í henni séu eftirtalin sjúkragögn: Kælisprey, plástur, skæri, teip, teygjubindi, grisjur og græðandi krem. Þegar þjálfari telur vanta gögn í sjúkratösku verður hann að biðja formann foreldraráðs um leyfi fyrir slíkri úttekt, og fá foreldraráð til að sjá um innkaup. Verði misbrestur á að þessu sé framfylgt, er yfirþjálfara heimilt að veita þjálfara áminningu.

19. Þjálfara er óheimilt að láta skrifa vörur á BUR eða knattspyrnudeild ÍR, nema að hann hafi til þess úttektarbeiðni og leyfi frá BUR eða stjórn knd. Þjálfari skal kynna leikmönnum þessa reglu sem og aðrar ákvarðanir stjórnar knattspyrnudeildar eða BUR sem varða leikmennina.

20. Óski þjálfari eftir breytingu á leikdegi hjá liði sínu skal hann sjá um þau samskipti sjálfur við hitt félagsliðið og KSÍ. Þjálfara ber að tilkynna vallarstarfsmanni, íþróttafulltrúa og yfirþjálfara um breytinguna um leið og hún fæst samþykkt. Áður en þjálfari breytir leikdegi á heimaleik skal hann hafa gengið úr skugga um, að leikvellir ÍR séu ekki uppteknir á sama tíma og fyrirhugaður leikur á að fara fram.

21. Þjálfari skal markvisst stuðla að því að framkoma leikmanna hans sé ÍR til fyrirmyndar í hvívetna, innan vallar sem utan, í búningsklefum, á keppnisferðalögum hér á landi og erlendis, á æfingum, í leikjum, gagnvart dómara og starfsmönnum leikja, andstæðingum, áhorfendum og eigin félagi.

22. Þjálfari skal sjá til þess að skipa liðstjóra, búningastjóra sem alla jafna kemur úr hópi foreldra/forráðamanna.

23. Þjálfari ber ábyrgð á því að leikskýrslur séu útfylltar fyrir leiki skv. lögum KSÍ. Liðstjóri/ aðstoðarþjálfari skal sjá um útfyllingu skýrslunnar, en ábyrgðin er engu að síður þjálfarans.

24. Þjálfari ber ábyrgð á því að búnaður leikmanna í mótum á vegum KSÍ, sé í samræmi við reglugerð KSÍ þar að lútandi.

25. Þjálfari skal starfa í hvívetna eftir reglum og samþykktum knattspyrnudeildar ÍR og BUR. Verði misbrestur á því er það í höndum yfirþjálfara knattspyrnudeildar að ákveða um framhaldið.

26. Þjálfari hefur ekki rétt á að vísa iðkenda úr félaginu vegna vandamála sem koma upp í flokknum. Komi upp agavandamál í flokknum skal þjálfari tafarlaust gera foreldrum/ forráðamönnum viðvart og reyna að leysa málið í samvinnu við þá. Verði ekki bót á hegðun leikmanns skal bera þau mál undir yfirþjálfara og leysa málið í samvinnu við hann, BUR og viðkomandi foreldra/forráðamenn.

27. Þjálfarar á vegum ÍR skulu hafa lokið KSÍ III. Þjálfarar sem eru með 3.fl - 4.fl.karla og kvenna skulu hafa lokið B.stigi KSÍ. Yfirþjálfari skal hafa lokið A.stigi KSÍ. Yfirþjálfari getur gert undanþágu vegna þjálfara sem ekki hafa viðunandi menntun. Viðkomandi þjálfari verður þá að sækja sér þá menntun sem krafist er af honum á fyrsta eða öðru ári þjálfunar hjá knattspyrnudeild ÍR.

28. Þjálfari skal markvisst stuðla að því að framkoma hans sé ÍR til fyrirmyndar í hvívetna, innan vallar sem utan, í búningsklefum, á keppnisferðalögum hér á landi og erlendis, á æfingum, í leikjum, gagnvart dómara og starfsmönnum leikja, andstæðingum, áhorfendum og eigin félagi. Þjálfari skal ætíð láta almennt siðferði ráða í samskiptum við foreldra, iðkendur og aðra aðila. Engar sérstakar siðferðis reglur eru tilteknar í þessu skjali, yfirþjálfari hefur fullt vald til að meta hvort þjálfari brjóti siðferðisreglur félagsins og beita þá grein 29.

29. Verði misbrestur á starfi þjálfara getur yfirþjálfari og BUR tekið málið til meðferðar, sbr. viðkomandi starfslýsingu.
Ath starfslýsing þjálfara barna og unglingaráðs er ekki tæmandi. Og búast má við viðbótum á komandi ár-i/um.

 

ÞAÐ ER EKKI ? UM HVAÐ ÞÚ HEFUR,
HELDUR HVAÐ ÞÚ GERIR VIÐ ÞAÐ SEM ÞÚ HEFUR.