ao

hertz-hvitur_grunnur

jako

rafdis-logo

Almennt um yngri flokka

Allir eru velkomnir að æfa knattspyrnu með ÍR og þjálfarar taka vel á móti nýjum iðkendum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér íþróttina þurfa bara að mæta á æfingu og gefa sig fram við þjálfara. Það má mæta á æfingar í tvær vikur án þess að ganga frá skráningu en eftir það er ætlast til að iðkandi verði skráður í deildina og gengið frá greiðslu æfingagjalda.

Nánari upplýsingar um æfingatíma og þjálfara einstakra flokka er að finna á æfingatöflu knattspyrnudeildar.

Skráning fer fram í gegnum Nóra skráningarkerfið. Þegar kerfið er notað í fyrsta sinn þarf að nýskrá sig en eftir það er farið í innskráningu. Athugið að það þarf að samþykkja skilmála áður en hægt er að skrá sig inn.

Æfingagjöld er hægt að greiða með því að fá greiðsluseðil sendan í einkabanka, með greiðslukorti eða með frístundastyrk Reykjavíkurborgar. Frístundastyrkurinn er 30.000 krónur og er veittur foreldrum eða forráðamönnum allra 8‒16 ára barna í Reykjavík til að stuðla að jöfnum möguleikum barna til frístundastarfs. Frístundastyrknum er ráðstafað í gegnum Rafræna Reykjavík. Nánar má lesa um frístundastyrkinn á vef Reykjavíkurborgar. Ef greitt er með greiðslukorti er mögulegt að semja um greiðsludreifingu til þriggja mánaða. 

Börnum í 1. og 2. bekk stendur til boða að kynna sér fleiri íþróttagreinar hjá ÍR með því að skrá sig í ÍR-unga og fá þannig tækifæri til að prófa æfingar hjá öllum deildum félagsins gegn einu æfingagjaldi.

Breiðholtsstrætó á vegum ÍR sér um að koma börnum á æfingar sem fara fram á þeim tíma sem frístundaheimili eru opin. Vagninn leggur af stað frá Vinaseli við Seljaskóla klukkan 14:20 alla virka daga og sækir svo börn í frístundaheimilin í Breiðholti og kemur þeim í Austurberg þar sem æfingar hefjast klukkan 15:00.

Undirheimar er frístundaheimili sem rekið er í íþróttahúsinu við Austurberg fyrir þau börn sem stunda þar íþróttir. Þau börn sem fara á æfingar klukkan 16:00 eða 17:00 bíða í Undirheimum eftir að æfing hefjist en börn sem ljúka æfingum klukkan 16:00 geta farið í Undirheima að æfingum loknum og verið þar til lokunar klukkan 17:15. Börnin eru sótt í íþróttahúsið í Austurbergi eða Undirheima þá daga sem þau fara með Breiðholtsstrætó. 

Foreldrar eða forráðamenn sjá um að koma upplýsingum til frístundaheimila um það hvaða daga börnin stunda íþróttir og eiga að fara með vagninum.

Foreldrum sem vilja meiri upplýsingar um starf knattspyrnudeildar og æfingar yngri flokka er bent á að hafa samband við þjálfara viðeigandi flokks, upplýsingar um nöfn og símanúmer þjálfara eru á æfingatöflu.