jako

Gott að vita

Gott að vita

Taekwondo er meira en 2000 ára gömul íþrótt frá Kóreu

Taekwondo á rætur að rekja meira en 2000 ár aftur í tímann. Það er keppt í Taekwondo á Ólympíuleikunum og það eru alltaf fleiri og fleiri að byrja að æfa Taekwondo úti um allan heim.

 

Taekwondo er skemmtileg og spennandi íþrótt fyrir alla krakka

Á æfingum hjá okkur er alltaf mikið um að vera og engum ætti að leiðast. Krökkunum finnst oftast mjög gaman og bíða alltaf spenntir eftir næstu æfingu. Það ættu því allir krakkar að mæta á æfingu og prófa Taekwondo, líka þeir krakkar sem hafa ekki haft áhuga á öðrum íþróttum hingað til (t.d. handbolta eða fótbolta) því Taekwondo er öðruvísi, fjölbreytt og spennandi.

 

Í Taekwondo fáum við ný belti þegar við stöndum okkur vel

Taekwondo-búningar eru hvítir og með belti sem eru mismunandi á litinn. Beltið táknar það hversu langt maður er kominn í Taekwondo.

Það byrja allir með hvítt belti og þeir sem eru duglegir að mæta á æfingar og leggja sig fram geta tekið beltapróf. Ef maður stenst beltaprófið fær maður nýtt belti.

Þeir sem æfa stíft í mörg ár og verða mjög góðir í Taekwondo geta svo að lokum náð svarta beltinu.

 

Taekwondo er mjög hollt og gott fyrir krakka

Það er nauðsynlegt fyrir alla krakka að hreyfa sig oft og mikið. Taekwondo er mjög góð leið til að efla hreyfiþroska og samhæfingu.

Í Taekwondo er krökkunum líka kennt að sýna aga og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Hjá Taekwondo deild ÍR hafa æft börn sem eiga við ýmsa erfiðleika að stríða (ofvirkni, einelti, yfirþyngd og seinn hreyfiþroski svo dæmi séu nefnd) og hefur Taekwondo oftar en ekki hjálpað mikið til við að glíma við þessi vandamál.

 

Taekwondo er ekki slagsmálaíþrótt

Í Taekwondo er kennd sjálfsvarnar- og bardagatækni. Taekwondo getur verið hættulegt vopn og þeir sem vilja læra Taekwondo verða því líka að læra að sýna aga og virðingu.

Það er stranglega bannað að nota Taekwondo utan æfinga (nema í neyðarvörn) og þeir sem óhlýðnast þessari reglu fá ekki að æfa Taekwondo.

Taekwondo snýst um virðingu, vináttu og þrautseigju. Sannur Taekwondo-maður veit að ofbeldi er alltaf röng leið til að leysa deilur og leiðir aldrei af sér neitt gott.

 

Taekwondo er líka fyrir pabba og mömmu

Margir foreldrar fylgja börnum sínum á æfingar. Stuðningur foreldranna er mjög mikilvægur til að hjálpa börnunum að læra og skilja Taekwondo betur. Það er líka gaman fyrir foreldrana að koma og fylgjast með framförunum hjá krökkunum. Einnig bendum við á að Taekwondo er fyrir alla - ekki bara krakkana! Það eru til fjölmörg dæmi um að foreldrar hafi byrjað að æfa eftir að hafa kynnst Taekwondo í gegnum börnin sín. Þannig geta börn og foreldrar átt skemmtilegt og hollt áhugamál saman. Svo þegar krakkarnir vaxa úr grasi og koma upp í fullorðinshóp þá getur öll fjölskyldan æft saman. Betra verður það ekki!

 

 

© Texti: Jóel K Jóelsso