jako

Um TTU

Traditional Taekwondo Union

 

TTU logo bigTTU (Traditional Taekwondo Union) eru norræn vináttusamtök sem hafa það að markmiði að halda í heiðri og efla undirstöðureglur og gömul gildi í Taekwondo sem hafa að miklu leyti gleymst eftir að Taekwondo þróaðist í átt til keppnisþróttar.

 

TTU var stofnað á sumaræfingabúðunum í Jevnaker árið 1996. Stofnfundur var svo haldinn á æfingabúðunum 1997. Frumkvöðull að stofnun samtakanna var stórmeistari Cho Woon Sup sem er vel þekktur á Norðurlöndum og reyndar víðar. Hann var fyrsti kóreski Taekwondo-kennarinn sem flutti til Danmerkur en það gerði hann árið 1976. Þar kenndi hann í ýmsum félögum á Kaupmannahafnarsvæðinu (m.a. Gladsaxe, Ballerup, Rødovre og Herlev), vann hjá kóreska sendiráðinu og hjá flugfélaginu Korean Air. 1982 stofnaði hann Lyngby Taekwondo Klub þar í landi.

 

Árið 1987 fluttist stórmeistari Cho til Noregs. Þar býr hann nú og ferðast á milli ýmissa aðildarfélaga í TTU og kennir Taekwondo.
Hugmyndin á bak við TTU er að æfa hefðbundið (traditional) Taekwondo til að vega á móti hinum algeru yfirburðum keppnishliðarinnar eftir að Taekwondo var viðurkennt sem ólympísk keppnisgrein. Leitast er við að varðveita gömul gildi og hefðir með aga og virðingu við æfingar. Til lengri tíma litið eflist skilningur, heiðarleiki, tillitssemi o.fl. svo þessi gildi hafa líka áhrif á daglegt líf okkar.
Mikilvægasti þátturinn er grunntæknin sem notuð er m.a. í poomse (formum), macheo kyeoreugi (skrefabardaga), Jayoo kyeoreugi (frjálsum bardaga) og Hosinsul (sjálfsvörn). Gildin og grundvallarreglurnar eru gömul en til að tryggja samræmi er grunntæknin frá Kukkiwon  notuð.

 

Fyrir nemendur og kennara býður TTU upp á fjölbreytt úrval viðburða s.s. æfingabúðir og námskeið auk hinnar árlegu Kóreuferðar. Mörg námskeiðanna samanstanda af bardagaþjálfun, grunntækni og Poomse. Einnig eru haldin sérstök námskeið fyrir kennara þar sem áhersla er m.a. lögð á sögu Taekwondo, heimspeki, siðfræði, skilning á tækni, Ki-orku, hefðbundnar bardagalistir o.fl. Í hinni árlegu Kóreuferð er hægt að velja á milli Taekwondo-keppnisþjálfunar, og hefðbundinna bardagalista s.s. Taekyon, Sonmudo og Kyong Dang.

 

Aðildarfélög TTU eru í eftirtöldum löndum:
-Noregi
-Svíþjóð
-Danmörku
-Íslandi (ÍR)
-Þýskalandi.

 

TTU kemur ekki í staðinn fyrir landssamböndin í aðildarlöndunum en geturu verið mjög góð viðbót fyrir félögin t.d. vegna þess að háum beltum er hjálpað að þroska sig og læra enn meira, sem er erfitt að gera upp á eigin spýtur. Margir kennarar og nemendur vilja öðlast meiri skilning á Taekwondo. TTU getur gefið þeim þá innsýn í heimspekilega og andlega hlið Taekwondo sem þeir eru að leita eftir.

 

TTU hefur það að markmiði að byggja upp breiðan og stöðugan hóp kennara og meistara sem geta veitt félögum stöðugleika og nemendum innblástur.
TTU eru lýðræðisleg samtök sem geta þróast enn meira með hjálp hugmynda og reynslu meðlimanna.

 

TTU býður upp á mikla möguleika fyrir nemendur og kennara til að komast lengra og þar njótum við hjálpar stórmeistara Cho Woon Sup sem er góð fyrirmynd og veitir öllum sem honum kynnast mikinn og góðan innblástur.

 

 

Efni fengið af heimasíðu TTU

© Texti: Ole Havmøller

© Þýðing: Jóel K. Jóelsson