hertz-hvitur_grunnur

jako

ao

wise

rafdis-logo

Lesa frétt
19.11.2015

Fjölmennustu Silfurleikar ÍR frá upphafi

tilraun1Silfurleikar ÍR í frjálsíþróttum verða haldnir í frjálsíþróttahöllinni í Laugardala á laugardaginn kemur.

Leikarnir eru haldnir árlega til heiðurs afreki Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 þar sem hann vann fyrstu Ólympíuverðlaun Íslendinga með silfurverðlaunum í þrístökki. Keppni í þrístökki er gert sérstaklega hátt undir höfði á leikunum.

Silfurleikar ÍR fara nú fram í tuttugasta sinn og þegar ljóst að metþátttaka verður eða um 800 keppendur á aldrinum 17 ára og yngri allstaðar að af landinu. Fjölmennasti keppendahópurinn er frá mótshöldurum ÍR sem senda 190 keppendur til leiks.

Þegar fyrstu leikarnir voru haldnir haustið 1996 þótti það mjög nýstárlegt að halda frjálsíþróttamót innanhúss fyrir börn og unglinga að hausti til. Þátttakendur í fyrsta mótinu var innan við eitt hundrað en Silfurleikarnir ruddu brautina í mótahaldi að hausti til og nú eru haldin mörg mót innanhúss hér á landi fyrir börn og unglinga á þessum tíma árs. Í auknu mótaframboði hafa Silfurleikarnir haldið sínum sessi sem fjölmennasta frjálsíþróttamótið sem haldið er að hausti til hér á landi.

Fjölmennt mót eins og Silfurleikar ÍR krefjast mikils mannafla. Það verða um eitt hundrað sjálfboðaliðar úr Frjálsíþróttadeild ÍR sem munu sjá um dómgæslu og  sjá til þess að allt fari vel fram. Keppni mun standa yfir frá kl. 9:00-18:00 laugardaginn 21. nóvember.

Hvetjum alla til að kíkja við í Höllinni og taka þátt í gleðinni.