hertz-hvitur_grunnur

jako

ao

wise

rafdis-logo

Lesa frétt
24.11.2015

Glæsilegir Silfurleikar ÍR haldnir í 20. sinn

silfurleikarSilfurleikar ÍR voru haldnir í 20. sinn laugardaginn 21. nóvember. Keppnin fór fram í frjálsíþróttasal Laugardalshallarinnar og var nýtt þáttökumet slegið en 780 ungmenni á aldrinum 4-17 ára frá 28 félögum og héraðssamböndum tóku þátt. Þetta er þremur félögum fleira en í fyrra og 180 keppendum fleira en árið á undan.

Fjölþraut barna er alltaf vinsæl meðal þeirra allra yngstu en þar kynnast þau frjálsíþróttum í fyrsta sinn á skemmtilegan og uppbyggjandi hátt. Mögulega verða einhverjir úr þeim hópi íþróttafólk framtíðarinnar á Íslandi.

Nýmæli var að keppt var í fjórþraut 10 -11 ára en þar keppa ungmennin í fjórum keppnisgreinum. Keppendur fara í gegnum þrautina í litlum hópum en slík samvinna gefur þeim tækifæri til að þroska félagalega þáttinn hjá sér og efla samvinnu og kunningsskap sem einmitt er svo mikilvægt í íþróttum. Áhuginn fyrir þessari grein var svo mikill að það var sett Íslandsmat í fjölda keppenda í einnig keppnisgrein á frjálsíþróttamóti, nýja Íslandsmetið er 144 keppendur sem skipuðu 18 flotta hópa sem sumir voru blanda af íþróttamönnum frá mismunandi félögum, íþróttafólk sem kannski þekktist ekki neitt.

Þrátt fyrir að gleði og ánægja sé megin markmiðið með þátttöku í frjálsíþróttum þá er ekki hægt að segja annað en að keppnin hafi verið hörð og mikið um bætingar á persónulegum árangri sem sýnir að unga íþróttafólkið okkar er að taka framförum. Þau einstaklings afrek sem stóðu upp úr þeim 600 bætingum sem áttu sér stað á laugardaginn voru 1.70 m í hástökki 12 ára pilta en þar bætti Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, met frá árinu 1993 um 4 cm. Hin 12 ára Jana Sól Valdimarsdóttir, FH, hljóp 600m á tímanum 1:44,80 mín og Helgi Pétur Davíðsson, UFA, hljóp 60m grindarhlaup í flokki 15 ára pilta á tímanum 8,75sek.

Yfir 100 sjálfboðaliðar á öllum aldri úr röðum ÍR-inga framkvæmdu mótið flestir þeirra foreldrar barnanna sem tóku þátt og félagar úr meistaraflokki félagsins. Að framkvæma mót sem þetta eflir félagsandann og félagsauðinn innan félagsins og í samfélaginu auk þess að gefa foreldrum tækifæri til að taka virkan þátt í áhugamáli barnsins sín sem er mjög mikilvægt fyrir velferð ungmennanna.

Fjöldinn allur af aðstandendum mættu til að hvetja sitt fólk og festa „mómentin“ á filmu. Á tímabili jaðraði við að fjöldinn væri orðinn of mikill fyrir þetta stóra hús. Einhverjir úr þeim hópi voru að koma í Laugardalshöllina í fyrsta sinn og upplifa stemminguna sem þar var.

20. Silfurleikar ÍR heppnuðust einstaklega vel sér í lagi í ljósi þess mikla fjölda sem tók þátt í þeim. Frjálsíþróttadeild ÍR þakkar öllum þátttakendum fyrir komuna og óskar þeim til hamingju með bætingarnar 600. Starfsmönnum eru færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.