hertz-hvitur_grunnur

jako

ao

wise

rafdis-logo

Lesa frétt
1.2.2016

Aníta Hinriksdóttir valin íþróttakona ÍR og Hafþór Harðarson íþróttkarl ÍR fyrir árið 2015

Íþróttakona og íþróttakarl ÍR 2015 voru heiðruð á verðlaunahátíð félagsins s.l. föstudag.  Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona var valin íþróttakona ÍR 2015 og Hafþór Harðarson keilari íþróttakarl ÍR 2015. Þau voru valin úr stórum hópi tilnefndra afreksmanna frá öllum deildum félagins.  Anítu og Hafþóri og öllum tilnefndum afreksmönnum ÍR eru færðar hamingjuóskir með kjörið og tilnefninguna. 

Hafþór og Aníta

Hér fara á eftir umsagnir um afreksfólkið sem tilnefnt var af forsvarsmönnum deilda félagsins:

Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona og íþróttakona ÍR  2015

Aníta  tvíbætti Íslandsmetið í 800m hlaupi innanhúss og varð Íslandsmeistari innanhúss bæði í 400m og 800m hlaupum.  Sigraði 800m hlaup Reykjavík Internatioanla Games og endaði frábært innanhússtímabil með því að komast í úrslit á Evrópumeistaramóti fullorðinna, setti þar Íslandsmet og ná 5. sæti.  Utanhúss vann Aníta gullverðlaun í 1500m hlaupi og var í boðhlaupssveit Íslands í 4x400m sem sigraði í Smáþjóðaleikum í Reykjavík.  Þar vann Aníta einnig silfurverðlaun í 800m hlaupi.  Hún varð Íslandsmeistari í 800m hlaupi utanhúss og vann bronsverðlaun á Evrópumeistaramóti unglinga 19 ára og yngri í Eskilstuna.  Aníta var ein þriggja Íslendinga sem náði lágmarki til keppni á Heimsmeistaramóti fullorðinna í Peking og þar náði Aníta 20. sæti og hljóp á sínum besta tíma á árinu 2:01.01 sem hefur tryggði henni keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Río á komandi sumri.  Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára hefur Aníta skipað sér á bekk með mestu afrekskonum íslenskra frjálsíþrótta frá upphafi.  

Hafþór Harðarson, keilari ársins og íþróttakarl ÍR 2015
Hafþór varð Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari og Íslandsmeistari Para ásamt Dagnýu Eddu Þórisdóttur árið 2015. Hafþór varð í 69. sæti  af 185 keppendum á Evrópumóti landsliða sem fram fór í Álaborg á árinu og í 20. sæti af 38 keppendum á Evrópumóti landsmeistara 2015.  Í sumar tók Hafþór þátt í Heimsbikarmóti fyrir Íslands hönd og hafnaði í 17.-19. sæti einungis 4 pinnum frá því að komast áfram en 16 efstu kepptu til úrslita.   Hafþór sigraði í forkeppni AMF World Cup á Íslandi  og í nóvember mánuði tók Hafþór, sem fulltrúi Íslands, þátt á AMF World Cup í Las Vegas og þar varð hann í 27. sæti af 86 keppendum.  Hafþór er með næst hæsta meðaltal íslenskra karla 205,64  árið 2015. Hafþór er góð fyrirmynd ungra keilara.

allir samanÁstrós Eiðsdóttir,  knattspyrnukona ÍR 2015
Ástrós gekk til liðs við knattspyrudeld ÍR árið í byrjun árs 2015. Stendur sig frábærlega innan og utan vallar. Ástrós er góð fyrirmynd, hún er drífandi einstaklingur bæði sem leikmaður og sem þjálfari. Frá því hún gekk til liðs við ÍR er hún með 100% mætingu á æfingar og alltaf til í að fórna öllu fyrir íþróttina. Síðan hún kom til ÍR hefur hún tekið þátt í öllum verkefnum meistaraflokks kvenna, þjálfað yngriflokka deildarinnar og staðið sig frábærlega. Ástrós er vel að titlinum komin sem knattspyrnukona ÍR árið 2015.

Ástrós Pétursdóttir, keilari ársins í kvennaflokki ÍR 2015
Ástrós varð Íslandsmeistari í tvímenningi ásamt Dagnýu Eddu þórisdóttur,  hún var Reykjavíkurmeistari, varð í 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu og í öðru sæti á Íslandmóti Para ásamt Stefáni Claessen og Íslandsmeistari og bikarmeistari liða með liði sínu ÍR-Buff.  Hún átti sæti í landsliði Íslands og náði besta árangri íslenskra kvenna á Heimsmeistaramótinu í Abu Dhabi í desember. Hún var efst íslenskra kvenna í meðatali síðastliðið vor og í öðru sæti nú í haust með 198,3 í meðal skor.  Í sumar tók Ástrós Heimsbikarmóti fyrir Íslands hönd. Ástrós er ávalt góð fyrirmynd ungra keilara.

Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir, handknattleikskona ÍR 2015
Brynhildur hefur á árinu þróast í að vera einn af mikilvægustu leikmönnum ungs kvennaliðs meistaraflokks ÍR. Hún hefur átt fast sæti í U-19 ára landliði Íslands á árinu. Brynhildur hefur mikinn drifkraft og leiðir sitt lið áfram með krafti sínum og getu á og gefst aldrei upp. Brynhildur er góð fyrirmynd yngri stúlkna í handboltanum og öflugur leiðtogi í kvennaliði ÍR.  vel að því komna að vera valin úr okkar röðum í þessa kosningu. 

Helga María Vilhjálmsdóttir , skíðakona ÍR 2015
Helga María hefur verið ein besta skíðakona landsins undanfarin ár. Síðastliðin vetur keppti hún á yfir 30 alþjóðlegum mótum viðsvegar um heiminn. Stærstu áskoranir vetrarins voru heimsmeistaramótið í Vail í USA. Helga keppti þar bæði í svig og stór svigi og kláraði bæði mótin. Einnig náði hún 2. sæti á Íslandsmeistaramótinu bæði í svigi og stórsvigi en þar var hún ríkjandi Íslandsmeistari. Segja má að besti árangur vetrarins hafi komið í lok vetrar þegar hún náði 2. sæti á norska unglingameistaramótinu og gerði sína bestu punka í stórsvigi. Bæti hún stöðu sína í flestum greinum á heimslista. Helga María er í A landsliði Íslands á skíðum. 

Mary Jane Rafael , karatekona ÍR 2015
Mary varð Íslandsmeistari í kata 2015 og var valin í Íslenska landsliðið 2015. Á þessu tímabili hefur hún unnið tvö af þremur Busidomótum vetrarins 2015-2016 í kata.  Hún  varð í 2. sæti í kata á Reykjavík International Games 2015.  Mary er góð fyrirmynd og fulltrúi karateíþróttarinnar, hún hefur góða nærveru og mikinn áhuga  á íþróttinni og er ætið tilbúin til að miðla þekkingu sinni til þeirra sem yngri eru.  

Alexander Njálsson, júdókarl ÍR 2015
Alexander er efnilegasti iðkandi judodeildar ÍR. Hann byrjaði ungur að æfa judo  hjá ÍR. Hann hefur mikinn andlegan styrk og heldur alltaf áfram að æfa hvað sem á dynur. Þó hann sé rétt 16 ára þá er hann nú þegar komin með brúnt  Judobelti þannig að hann gæti verið komin með svart belti eftir ár. Alexander vann meðal annars silfurverðlaun á Reykjavíkurmótinu í fullorðinsflokki.  Hann hefur náð miklum árangri  í íþróttinni og er farinn að hjálpa til við þjálfun yngri iðkenda.  Alexander er yngri iðkendum góð fyrirmynd. Fróðlegt verður að fylgjast með árangri Alexanders í framtíðinni  bæði hér heima og erlendis.

Aron Anh Ky Huynk, karatekarl ÍR 2015

Aron byrjaði að æfa karate 10 ára gamall og varð Íslandsmeistari unglinga 16-17 ára í kata 2015 og í 3. sæti  í hópkata. Hann varð í 3. sæti á Íslandsmeistaramóti unglinga í kumite 2015. Varð í 2. sæti á Íslandsmeistaramóti fullorðinni í kumite og lenti í 2. sæti í flokki karla -67kg. Hann hefur unnið tvö af þremur Busidomótum vetrarins í kata og lenti í 3. sæti í kumite í sínum aldursflokki.

Aron var valinn í Íslenska landsliðið í karate 2015 til að taka þátt í Norðurlandsmeistaramótinu, þar sem hann náði mjög góðum árangri.  Síðustu tvö ár hefur hann æfta af miklum metnaði og er góð fyrirmynd og fulltrúi karateíþróttarinnar. 

Guðni Valur Guðnason,  frjálsíþróttakarl ÍR 2015

Guðni Valur kom eins og stormsveipur inna á kringlukastssviðið árið 2015 með mjög óvæntum sigri  og stórbætingu á Smáþjóðaleikum í Reykjavík í byrjun júní.  Guðni tryggði sér landsliðssæti með þessum árangri og keppti fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni landsliða og náði 4. Sæti í kringlukasti.  Varð Íslandsmeistari karla og unglinga 20-22 ára.  Tryggði sér keppnisrétt á Evrópumeistaramóti 20-22 ára og hafnaði þar í 15. Sæti.  Guðni Valur lauk sumrinu með risakasti upp á 63.50m og bætti Íslandsmetið í flokki 20-22 ára.   Með árangri sínum skipaði Guðni sér í þriðja sæti á lista bestu kringlukastara Íslands frá upphafi og átti stigahæsta afrekið karlaflokki innan ÍR sem tryggði honum keppnisrétt á Evrópumeistaramóti fullorðinna árið 2016. Guðni er fjölhæfur íþróttamaður sem hefur hæfileika til að skipa sér í fremstu röð í heiminum í sinni aðalgrein kringlukastinu. 

Hákon Örn Hjálmarsson, körfuknattleikskarl ÍR 2015

Hákon Örn Hjálmarsson er fæddur 1999 og hefur allan sinn feril leikið með ÍR. Síðastliðið vor var Hákon lykilmaður í 10. Flokks liði ÍR sem varð Íslandsmeistari annað tímabilið í röð og var Hákon jafnframt valin maður úrslitaleiksins. Hann var valinn í íslenska unglingalandsliðið undir 16 ára sem tók þátt í norðurlandamótinu og evrópumótinu sem fram fór í Soffíu í Búlgariu. Á EM sló Hákon í gegn, spilaði  29.8 mín að meðaltali í leik, tók 6.1 frákast, gaf 2.2 stoðsendingar og skoraði 17.9 stig.   Hákon Örn varð næststigahæsti leikmaður mótsins en samtals tóku um 290 leikmenn þátt í mótinu í 24 liðum. Á yfirstandi tímabili hefur Hákon haldið áfram sem lykilleikmaður með yngri flokkum félagsins auk þess sem hann hefur spilað sína fyrstu meistaraflokksleiki fyrir félagið aðeins 16 ára gamall. 

Kristinn Logi Auðunsson Skíðakarl ÍR 2015

Kristinn Logi var valinn í landsliðshóp fyrir HM unglinga og keppti þar ásamt fjöld móta erlendis. Kristinn er borinn og barnfæddur ÍR-ingur og hefur æft skíði frá unga aldri, áhugi hans hefur vaxið jafnt og þétt og bankar hann nú á landsliðsdyr skíðasambandsins. Kristinn er að búinn að bæta stöðu sína á heimslista umtalsvert á milli ára. 

 Már Viðarsson, knattspyrnukarl ÍR 2015

Már Viðarsson er 21 árs uppalinn ÍR ingur og sinnir félaginu af miklum krafti innan vallar sem utan.  Már var lykilleikmaður í meistaraflokki ÍR  í knattspyrn síðasta sumar og spilaði 16 leiki í vörninni í Íslandsmótinu og skoraði 1 mark.  ÍR fékk á sig næst fæst mörk í 2. deildinni og átti Már stóran þátt í því.  Már var svo óheppinn að viðbeinsbrotna undir lok leiktíðarinnar og missti af þremur síðustu leikjunum í 2. deildinni.  Það er alltaf hægt að leita til hans þegar hjálpa þarf til utan vallar hjá okkur ÍR ingum hvort sem það er aðstoð við þjálfun eða bara hvað sem er hjá félaginu.  Slíkir íþróttamenn eru ómetanlegir í okkar félagi.