Um Frjálsíþróttadeild ÍR
ÍR  hóf fyrst félaga iðkun frjálsíþrótta á Íslandi á Landakotstúninu sumarið 1907. Saga félagsins í rúmlega 100 ár er viðburðarík. ÍR-ingurinn Jón Halldórsson keppti fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í frjálsíþróttum en hann keppti í 100 m hlaupi á leikunum í Stokkhólmi 1912. Fyrsti afreksmaður ÍR á alþjóðavísu var Jón J. Kaldal sem sló mörg met í lengri hlaupum sem stóðu um áraraðir. Fjölmargir ÍR-ingar hafa keppt á Ólympíuleikunum en lengst allra náðu þau Vilhjálmur Einarsson sem hlaut silfurverðlaun í þrístökki á leikunum 1956 og Vala Flosadóttir með bronsverðlaun í stangarstökki í Sidney 2000. Einu verðlaunahafar Íslands í frjálsíþróttum á Ólympíuleikunum. ÍR-ingar byggðu upp mjög sterkt lið á áttunda áratugnum undir stjórn hins farsæla þjálfara Guðmundar Þórarinssonar og sigruðu 16 ár í röð í Bikarkeppni FRÍ en frá 1989 hafði ÍR ekki sigraði í Bikarkeppninni þegar langþráður sigur vannst 2009. Á nýrri öld hefur starfsemi deildarinnar vaxið jafnt og þétt, árangur í yngri flokkum verið sérlega glæsilegur og eru iðkendur í dag um 400. Fjöldi þjálfara vinnur frábært starf undir styrkri stjórn Þráins Hafsteinssonar yfirþjálfara og má segja að bikarsigurinn 2009 hafi verið eðlilegt framhald góðrar vinnu undanfarinna ára, stjórnenda, þjálfara og keppenda.