Sumarnámskeið

Íþrótta- og leikjanámskeið ÍR fyrir 5-9 ára börn

Þetta vikunámskeið er bæði fyrir stelpur og stráka fædd 1999-2002. Á námskeiðinu verður farið í fullt af leikjum, s.s. ratleiki, gamla góða útileiki, börnin reyna sig í nokkrum íþróttagreinum, reynt við hornsílaveiðar og ýmsar heimsóknir svo sem í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Nýjungin í þessu námskeiði er sundkennsla frá Sundfélaginu Ægi í sundlaug Ölduselsskóla. Með þessu öllu stuðlum við að fjölbreyttri hreyfingu fyrir börnin og skemmtilegri upplifun enda einstaklega áhugavert námskeið á ferð. Þess fyrir utan er umhverfi ÍR stórbrotið og margt hægt að gera í gönguferðum. Íþróttafræðinemi kennir sundið en hún hefur einnig lært þjálfun hjá ÍSÍ og hjá Sundsambandi Íslands, sem og kennt sund í nokkru ár hjá Ægi og býr að sundlaugavarðarprófi.

Námskeiðin eru í boði allan daginn, frá kl.09:00-16:00, eða hálfan dag fyrir þá sem þess óska. Börnin hafa jafnframt kost á að vera í gæslu frá 8:00-09:00 og frá 16:00-17:00 dagana sem þau eru á námskeiðinu og er ekki greitt sérstaklega fyrir það. Hverju námskeiði lýkur með afhendingu viðurkenningaskjala og grillveislu í hádeginu.


Fjörkálfar í frjálsum og fótbolta 5-12 ára

Námskeiðið er fyrir hádegi og ætlað stelpum og strákum fædd árið 1996-2002. Um 2ja vikna námskeið er að ræða. Á námskeiðinu fá börnin tækifæri til að iðka bæði fótbolta og frjálsar íþróttir í bland við ýmsa leiki og útiveru. Boðið er upp á gæslu kl.08:00-08:30 fyrir þá sem nauðsynlega þurfa, annars er námskeiðið kl.08:30-12:30 með nestisbita kl.10:30. Í íþróttagreinunum tveimur verða börnin að hluta til saman en einnig verður þeim skipt upp í smærri hópa eftir aldri og kunnáttu í viðkomandi grein. Börnin fá að upplifa íþróttirnar sem hreina skemmtun í góðum félagsskap þar sem allir standa jafnir. ÍR er með úrvalsfólk á sviði íþrótta og fólk sem vant er að umgangast börn og munu þau kenna öll helstu tækniatriði beggja íþróttagreinanna og leggja áherslu á að börnin fái sem mest út úr námskeiðunum. Öllum er veitt viðurkenning að námskeiði loknu og grillað. Aðstaðan til þessarar íþróttaiðkunar er mjög góð við félagsheimili ÍR að Skógarseli, t.a.m. er til afnota einn fullkomnasti gervigrasvöllur landsins.

Tilvalið er að fara á önnur námskeið eftir hádegi, þá Íþrótta- og leikjanámskeið ÍR eða sundnámskeið hjá Ægi en kennslan fer fram í sundlaug Ölduselsskóla sem er í 5 mín. göngufæri frá ÍR heimilinu.