Lög ÍR

Lög Íþróttafélags Reykjavíkur
 
Samþykkt á aðalfundi ÍR 25. maí 2004


Lög félagsins á Word formiI. Nafn, heimili og tilgangur

1. gr.

Félagið heitir Íþróttafélag Reykjavíkur, skammstafað ÍR. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins er iðkun hverskonar íþrótta, sem landslög heimila, og að efla áhuga almennings á gildi íþrótta.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með stofnun og starfrækslu íþróttadeilda, einni í hverri grein, eftir því sem félagsmenn kunna að óska, undir sameiginlegri aðalstjórn félagsins. Aðalstjórn skal aðstoða við stofnun nýrra deilda og gildir stofnfundur, sem haldinn er eftir reglum aðalfunda deilda.
Innganga nýrra deilda í félagið skal borin upp til endanlegs samþykkis á næsta aðalfundi félagsins eftir stofnun hennar eða á sérstökum aukafundi sbr. 4. mgr. 9. gr.

3. gr.

Félagsmerkið er skammstöfunin með hvítum stöfum á bláum skildi. Nærri brún skjaldarins er hvít rönd. Blár litur merkisins er Pantone 286 C.
Hlutföll merkisins eru breidd á móti hæð 1 á móti 1,6, hlutföll gullins sniðs. Innbyrðis hlutföll einstakra litaflata eru einnig í hlutföllunum 1 á móti 1,6. Hæð skjaldarins á móti bogformi í neðri hluta hans er í hlutföllunum 1 á móti 1,6. Íhvolfur bogi efst í skildinum á móti samsíða hliðum hans deilist í hlutföllunum 1,4 á móti 1. Við félagsmerkið er deildum leyfilegt að bæta við sérmerki íþróttagreinar sinnar, sem þarf þó samþykki aðalstjórnar félagsins.

4. gr.

Aðalbúningur félagsins er hvítur og blár (sem næst blár Pantone 286) og auðkenndur með merki félagsins.

5. gr.
Félagi getur hver sá orðið, sem þess æskir og samþykktur er af meirihluta stjórnar þeirrar deildar, er hann óskar að starfa í. Heimilt er að ganga í fleiri en eina deild félagsins. Ennfremur er heimilt að gerast félagi, án þess að vera skráður í sérstaka deild og fjallar aðalstjórn þá um mál þeirra félaga, sem deildarstjórn væri. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega deildarstjórn, eða aðalstjórn, ef félagi er ekki meðlimur deildar, og skal hún tekin til greina, ef félagi er skuldlaus.

6. gr.
Árgjald félagsmanna, 16 ára og eldri, skal ákveðið á aðalfundi félagsins. Aðalstjórn skal sjá um innheimtu þess og skal það renna í aðalsjóð félagsins.
Sérhverri deild félagsins er heimilt að innheimta af öllum meðlimum hennar sérstök æfingagjöld. Þessi gjöld skulu standa undir kostnaði vegna æfinga og þátttöku í keppni á vegum deildarinnar.


II. Aðalfundur félagsins

7. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir apríllok ár hvert. Til aðalfundar skal boða á tryggilegan hátt með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef minnst helmingur skráðra kjörinna fulltrúa skv. kjörbréfi mæta. Hverri deild ber að skila kjörbréfum yfir fulltrúa sína.
Aðalstjórn skal skipuð fimm mönnum og tveim til vara. Formaður skal kjörinn sérstaklega og skriflega, ef fleiri en ein uppástunga kemur fram. Hinir sex stjórnar- og varastjórnarmenn skulu kosnir hlutbundinni kosningu. Fyrst skulu kosnir fjórir stjórnarmenn og síðan tveir til vara. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum sem hér segir: varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Dagskrá aðalfundar skal vera svo:
1. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar um starfsemi ársins.
4. Lesnir og skýrðir endurskoðaðir reikningar.
5. Lagabreytingar.
6. Ákveðin árgjöld.
7. Lögð fram starfs- og fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
8. Kosinn formaður.
9. Kosnir aðrir stjórnarmenn og varastjórnarmenn.
10. Kosnir tveir skoðunarmenn.
11. Önnur mál.
Á fundinum ræður meirihluti atkvæða, séu ekki önnur undantekningarákvæði í lögum þessum. Falli atkvæði jafn skal kosning endurtekin og fáist þá ekki úrslit ræður hlutkesti.

8. gr.

Allir lögmætir félagsmenn hafa rétt til fundarsetu, málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi félagsins. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa:
1. Stjórn félagsins.
2. Fulltrúar deilda kjörnir á aðalfundum þeirra, 1 fyrir hverja 30 deildarmenn, þó aldrei færri en 1 og aldrei fleiri en fimm.
3. Kjörnir skoðunarmennr aðalreikninga félagsins.
4. Fyrrverandi formenn félagsins.
Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum þess, þegar undan er skilið ákvæði um fasteignakaup og sölu, sbr. 4. mgr. 11. gr.
Skylt er aðalstjórn að halda aukafund félagsmanna, sem til skal boðað með sama hætti og aðalfundar, ef krafa um slíkt kemur fram frá meirihluta deildarstjórna, enda tilkynni þær um leið fundarefni það, sem þær óska að rætt verði. Aukafundur hefur sama vald og aðalfundur, nema þar fara hvorki fram lagabreytingar né stjórnarkosning.

9. gr.

Reikningsár félagsins og deilda skal vera almanaksárið og skulu reikningar hafa borist kjörnum skoðunarmönnum félagsins fjórum vikum fyrir aðalfund. Reikningar félagsins skulu liggja frammi viku fyrir aðalfund.


III. Stjórn félagsins

10. gr.

Aðalstjórn fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda. Henni ber að efla félagið og gæta hagsmuna þess út á við sem heildar. Hún hefur umráð yfir eignum félagsins og ræður starfsemi þess í stórum dráttum í samráði við deildarstjórnir. Aðalstjórn skipar trúnaðarmenn í nefndir félagsins og á vegum þess, nema þá sem um getur í 13. gr.
Aðalstjórn er heimilt að skipa sérnefndir svo sem húsnefnd, skemmtinefnd, fjáröflunarnefnd og aðrar, er henni þurfa þykir. Starfstímabil þessara nefnda skal aldrei vera lengra en fram að næsta aðalfundi félagsins.
Alla sjóði félagsins og peningaeignir skal ávaxta í banka, sparisjóði eða viðurkenndum verðbréfamarkaði.
Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin samþykki aðalstjórnar, endahafi Formannafélagið, sbr. 20. gr., gefið samþykki sitt til.
Aðalstjórn einni er heimilt að víkja mönnum úr félaginu, telji hún að framkoma þeirra hafi verið vítaverð og félaginu til vansa.
Ályktanir stjórnar eru bundnar meirihluta atkvæða stjórnarmanna.

11. gr.
Aðalstjórn félagsins skal halda fundi svo sem þurfa þykir og skal um þá haldin sérstök gjörðabók.
Aðalstjórn félagsins skal halda fundi með formönnum hinna einstöku deilda þegar tilefni gefst til og eigi sjaldnar en tvisvar á ári fundi með öllum formönnum deilda saman. Á fundum þessum skulu deildarformenn gefa skýrslu um starfsemi deildanna og stjórn félagsins gefa skýrslu um starfsemi og áform á vegum félagsins.
Aðalstjórn félagsins er skylt að hafa eftirlit með fjárreiðum deilda og er heimilt að krefja stjórnir deilda um rekstraryfirlit og greiðslustöðu þegar ástæða þykir til. Stjórnin skal ákveða með hvaða hætti þessu ákvæði verður framfylgt.

12. gr.

Allar mikilsháttar og verulegar fjárhagsskuldbindingar og samninga ásamt fjárhagsáætlunum skal bera undir samþykki aðalstjórnar. Verði misbrestur á þessu firrir félagið sig allri ábyrgð á skuldbindingunni og eru þá þeir einstaklingar sem hana framkvæmdu persónulega skuldbundnir. Aðalstjórn áskilur sér þá rétt til þess að hafa afskipti af stjórnun viðkomandi deildar.


IV. Aðalfundir deilda

13. gr.

Aðalfund deilda skal halda fyrir marslok ár hvert. Kosningarétt og kjörgengi hafa allir deildarmenn, sem orðnir eru 16 ára að aldri. Til aðalfundar skal boðað með viku fyrirvara á tryggilegan hátt. Er hann lögmætur ef 15 deildarmenn mæta, eða 50% af lögmætum deildarmönnum, séu þeir færri en 30. Dagskrá aðalfundar skal vera svo:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins.
3. Lesnir og skýrðir rekstrar- og efnahagsreikningar fyrir síðasta almanaksár.
4. Lögð fram starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
5. Kosinn formaður.
6. Kosnir aðrir stjórnarmenn og tveir stjórnarmenn til vara.
7. Kosnir fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund félagsins.
8. Ákveðin æfingagjöld.
9. Önnur mál.

14. gr.

Stjórn deildar skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Skal formaður kjörinn sérstaklega og skriflega ef fleiri en ein uppástunga kemur fram. Hinir sex stjórnar- og varastjórnarmenn skulu kosnir hlutbundinni kosningu. Fyrst skulu kosnir fjórir stjórnarmenn og síðan tveir til vara. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum sem hér segir: varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Stjórnin er kjörin til eins árs í senn. Falli atkvæði jafnt skal kosning endurtekin og fáist ekki þá úrslit ræður hlutkesti.
Deildarstjórn skal vinna að eflingu þeirrar íþróttagreinar, er deildin hefur verið stofnuð til.

15. gr.

Vanræki deild að halda aðalfund fyrir tilskilinn tíma, sbr. 13. gr., skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. Fundurinn er þá lögmætur, hversu fáir deildarmenn sem þar mæta.


V. Stjórnir deilda

16. gr.

Stjórnir deilda hafa hver um sig sérstakan fjárhag, ráða íþróttakennara, þjálfara og starfsmann og ákveða laun þeirra, annast daglegan rekstur deildanna, sjá um íþróttamót, er hverri grein heyra til, svo og þátttöku deildarmanna í mótum þeim, er ákveðin er þátttaka í. Deildir eru þannig sjálfstæðar, nema sbr. ákv. 3. mgr. 12. gr., og hafa tekjur af félagsgjöldum sínum, mótum þeim er þær halda, svo og eftir öðrum fjáröflunarleiðum, er deildarstjórnir ákveða í samráði við aðalstjórn félagsins. Haldnar skulu gjörðabækur um ársstarfið, fundi, keppnir og annað sem deildin tekur sér fyrir hendur. Skila skal starfsskýrslu deildar fyrir liðið almanaksár ásamt reikningum fyrir sama tímabil til stjórnar félagsins í mars ár hvert.

17. gr.

Halda skal spjaldskrá yfir alla félaga deildarinnar í samráði við aðalstjórn félagsins.
Deildarstjórn ber að fylgja reglum aðalstjórnar um skil á bókhaldsgögnum og fylgja ákvæðum 12. gr.

18. gr.

Uppgjörstímabil deilda miðast við almanaksárið.


VI. Önnur ákvæði

19. gr.

Heiðursfélaga má kjósa og skal þeim afhent heiðursfélagaskjal og stórkross Í.R. í stjörnu. Heiður þessi er sá æðsti er félagið veitir. Aðalstjórn félagsins kýs heiðursfélaga. Heiðursfélagar hafa öll réttindi félagsmanna, eru gjaldfríir, en verða að hafa náð fimmtugsaldri.
Eftirfarandi heiðursmerki má veita og skal þá fara eftir sömu reglum og gilda um kosningu heiðursfélaga að undanskildu ákvæði um að hafa náð fimmtugsaldri og því að vera gjaldfríir.
1. Í.R. merki úr gulli, fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, svo og erlendum og innlendum aðilum, sem sérstök ástæða þykir til, að heiðra.
2. Í.R. merki úr silfri fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
3. Í.R. merki úr gulli með ólympíuhringjum skal veita öllum félögum Í.R., sem þátt taka í keppni á Ólympíuleikum.
4. Í.R. merki úr gulli, auðkennt viðkomandi keppni, skal veita þeim félögum Í.R., sem taka þátt í heimsmeistarakeppni hinna ýmsu íþróttagreina.
Heimilt er að veita hverri deild fyrir sig leyfi til að hafa eitt sérstakt heiðursmerki. Skal merkið og reglur fyrir veitingu þess, háð samþykki aðalstjórnar. Að öðru leyti hefur deildin öll umráð yfir veitingu þess.

20. gr.

Formannafélag Í.R. er skipað fyrrverandi formönnum og núverandi formanni félagsins. Félagið starfar sjálfstætt og setur sér eigin starfsreglur, nema þar sem til þess vísast á öðrum stað í lögum þess, sbr. 4. mgr. 11. gr.

21. gr.

Hætti íþróttadeild störfum, skal afhenda eignir og skjöl hennar aðalstjórninni. Taki deildin ekki aftur til starfa innan 5. ára, skulu eignirnar renna í sjóð aðalstjórnar félagsins. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar.

22. gr.

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins, og þarf til þess samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra fundarmanna.
Tillögur um lagabreytingar, sem óskast teknar fyrir á aðalfundi, skulu hafa borist aðalstjórn fyrir 15. janúar ár hvert. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar stjórnum allra deilda innan félagsins eigi síðar en 1.febrúar ár hvert.
Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar jafnframt aðalfundarboði og skulu félagsmönnum heimilar til athugunar hjá aðalstjórn 7 dögum fyrir aðalfund.

23. gr.

Með þessum lögum eru öll eldri lög félagsins úr gildi fallin.

24. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.